Erlent

Eurovision: Samið um skuld ísraelska sjónvarpsins við EBU

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurvegarinn Netta Barzilai sagði "Next year: Jerusalem“ þegar hún tók við verðlaunagripnum í Lissabon í maí síðastliðinn.
Sigurvegarinn Netta Barzilai sagði "Next year: Jerusalem“ þegar hún tók við verðlaunagripnum í Lissabon í maí síðastliðinn. Vísir/Getty
Svo virðist sem að samkomulag hafi náðst varðandi skuld ísraelska ríkissjónvarpsins Kan við Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU. Þykir því ljóst að hægt verði að halda keppnina í Ísrael næsta vor eftir allt saman.

Forsvarsmenn Kan rituðu nýlega bréf til ríkisstjórnar Ísraels þar sem farið var fram á aukin fjárframlög – 12 milljónir evra eða um 1,5 milljarð íslenskra króna – til að geta staðið straum af kostnaði við að halda keppnina. Ísraelska ríkisstjórnin sagði þvert nei og hótuðu forsvarsmenn Kan því að mögulega þyrfti að halda keppnina í öðru landi.

Nú virðist hins vegar lausn vera komin í málið sem snýr að tryggingagjaldi sem sjónvarpsstöðin þarf að greiða EBU til að hýsa keppnina næsta vor.

Jerusalem Post greinir frá því að samkomulag hafi náðst milli ísraelska fjármálaráðuneytisins og Kan eftir „maraþonviðræður“, en frestur til að greiða trygginguna rennur út á miðnætti. Að sögn Jerusalem Post hefur fjármálaráðuneytið samþykkt að heimila Kan að taka lán fyrir tryggingunni.

Enn hefur ekki fengist staðfest í hvaða borg keppnin verður haldin. Sigurvegarinn Netta Barzilai sagði „Next year: Jerusalem“ þegar hún tók við verðlaunagripnum í Lissabon í maí síðastliðinn, en Kann hefur ekkert staðfest hvort það sé rétt.

Síðast þegar keppnin var haldin í Ísrael, árið 1999, fór keppnin fram í Jerúsalem.


Tengdar fréttir

Hætta á að Eurovision fari ekki fram í Ísrael

Hætta er á því að Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, fari ekki fram í Ísrael á næsta ári, fari svo að ísraelska ríkissjónvarpið geri ekki upp skuld sem það á við samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×