Erlent

Öldungadeildin segir fjölmiðla ekki vera „óvini þjóðarinnar“

Atli Ísleifsson skrifar
Ályktunin er samþykkt sama dag og rúmlega þrjú hundruð bandarísk dagblöð birtu leiðara þar sem orðræða Donalds Trump Bandaríkjaforseta þegar kemur að stöðu fjölmiðla er harðlega gagnrýnd.
Ályktunin er samþykkt sama dag og rúmlega þrjú hundruð bandarísk dagblöð birtu leiðara þar sem orðræða Donalds Trump Bandaríkjaforseta þegar kemur að stöðu fjölmiðla er harðlega gagnrýnd. Vísir/Getty
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag ályktun þar sem lýst er yfir stuðningi við frjálsa fjölmiðla og sérstaklega tiltekið að „fjölmiðlar [séu] ekki óvinur þjóðarinnar“. Ályktunin var samþykkt samhljóða, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Ályktunin er samþykkt sama dag og rúmlega þrjú hundruð bandarísk dagblöð birtu leiðara þar sem orðræða Donalds Trump Bandaríkjaforseta þegar kemur fjölmiðlum er harðlega gagnrýnd.

Trump hefur lengi verið harðorður í garð fjölmiðla, ítrekað talað um „falsfréttir“ og kallað fréttamenn og fjölmiða „óvin bandarísku þjóðarinnar“.

Ályktun öldungadeildarinnar er ekki bindandi, en í henni er talað um nauðsynlegt og ómissandi hlutverk frjálsra fjölmiðla við að upplýsa kjósendur, draga fram sannleikann, veita stjórnvöldum aðhald, vera vettvangur umræðu og hlúa að grundvallargildum Bandaríkjanna.

Donald Trump var tíðrætt um fjölmiðla á Twitter í dag þar sem hann sagði meðal annars falsfréttafjölmiðla vera stjórnarandstöðuna í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×