Fótbolti

Þór/KA mætir liði Söru Bjarkar í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þór/KA fagna Íslandsmeistaratitlinum í fyrra.
Þór/KA fagna Íslandsmeistaratitlinum í fyrra. vísir/þórir
Íslandsmeistarar Þór/KA drógust á móti þýsku meisturunum í VfL Wolfsburg í 32 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta en drátturinn fór fram í Nyon í dag.

Það var klappað í salnum þegar Wolfsburg liðið kom upp úr pottinum og kannski voru það fulltrúar Akureyrarliðsins í salnum.

Þór/KA var eitt sextán liða sem var í lægri styrkleikaflokki en meðal þeirra var líka Lilleström, nýtt lið Eyjakonunnar Sigríðar Láru Garðarsdóttur.

Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar hennar í þýska liðinu Wolfsburg eru mjög sterkir andstæðingar en liðið hefur unnið tvöfalt í Þýskalandi undanfarin tvö tímabil og komust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta ári.

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í sænska Rosengård mæta rússneska félaginu Ryazan-VDV.

María Þórisdóttir og félagar hennar í enska liðinu Chelsea mæta SFK 2000 frá Sarajevo í Bosníu.

Fyrri leikurinn verður spilaður á Akureyri 12. eða 13. september og sá seinni í Þýskalandi 26. eða 27. september.

Þór/KA á leiki í Pepsi-deildinni 17. september (Valur) og 22. september (Stjarnan) en þar er liðið í hörku baráttu um Íslandsmeistaratitilinn við Breiðablik.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer fram á Ferencváros leikvanginum í Búdapest í Ungverjalandi 18. maí 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×