Skoðun

Homminn og presturinn

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Í sumarfríinu stóð ég uppi á Mýrarfelli við Dýrafjörð ásamt fjölskyldu minni á fögrum degi og mætti þar Skarphéðni Garðarssyni kennara og fólki hans. Hann spurði okkur hvort við þekktum sögu Sigurðar Z. Gíslasonar, prests á Þingeyri, benti okkar á bratta fjallshlíð utan við Haukadal og rifjaði upp að þar hefði þessi prestur sem elskaður var af sínu byggðarlagi verið á leið til kirkju á nýársdegi árið 1943, lent í snjóflóði og ekki fundist fyrr en mánuði seinna.

Þarna rifjaðist upp ferðalýsing Sigurðar Z. sem mér var gefin er hann fór austur á land sumarið fyrir dauða sinn til að vitja æskuslóða sinna. Þar segir m.a.: „Og þegar við fórum yfir brúna þar sem Jökla fellur ægileg ásýndum í þröngum, háum gljúfrum kom mér í hug ágætur fagur sveinn sem fól Jökulsá harma sína.

Hann hafði elskað á breiðara grundvelli en þá var leyfilegt í almenningsáliti, en nú er hreint ekki óalgengt. Heimurinn hafði ekki rúm fyrir svona mikla ást. Þó fannst honum að Jökulsá í sínu þrengsta gljúfri gæti komið henni fyrir. Þær enda á margvíslegan hátt Íslendingasögurnar.

Nú vantar heiminn lagarfljótsbreiðan og jökulsárdjúpan kærleika. – Og svo þýtur bíllinn burt frá þröngu gljúfri með þá heitu ósk í svellandi brjósti farþegans úti við rúðuna að takast mætti að vekja til lífsins aftur þennan ítra hugdjarfa mann, er fleygði sér niður í ægidjúpið. Örlagastraumurinn bar sorg hans í gleymskunnar haf og það er von mín að upp úr bæði þessum og öðrum þrengslum andlegs lífs á Íslandi liðins tíma, mætti stíga andi víðsýnis og bróðurlegs skilnings á hjörtu og hugð náunga vors og samferðamanns.“ Hér talar þrítugur prestur árið 1942. Hugrakkur leiðtogi sem hafði þjónandi hjarta og frjálsan huga.

Sjáumst í Gleðigöngunni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×