Innlent

Efni notað í megrunartilgangi valdið 13 dauðsföllum í Bretlandi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Matvælastofnun varar við notkun á efninu DNP sem dregið hefur að minnsta kosti 13 manns í Bretlandi til dauða. Þrátt fyrir að bannað sé að selja efnið til manneldis er enn verið að selja og nota það í fæðubótarefni í megrunartilgangi.
Matvælastofnun varar við notkun á efninu DNP sem dregið hefur að minnsta kosti 13 manns í Bretlandi til dauða. Þrátt fyrir að bannað sé að selja efnið til manneldis er enn verið að selja og nota það í fæðubótarefni í megrunartilgangi. Vísir/getty
Matvælastofnun varar við notkun á efninu 2,4 dínótrófenól, kallað DNP sem enn er notað í fæðubótarefni í megrunartilgangi. Efnið hefur valdið að minnsta kosti 13 dauðsföllum í Bretlandi síðan árið 2015 og þá er vitað um eitt dauðsfall í Þýskalandi.

Yfirvöld í Bretlandi hafa greint frá því að sala efnisins, sem bannað er að selja til manneldis, hefur aukist að undanförnu á vefsíðum. Bresk yfirvöld segja neyslu efnisins vera verulegt áhyggjuefni.

Efnið er meðal annars notað við framleiðslu á viðarvörn, litarefnum, varnarefnum og sprengjuefnum og er á markaðnum af þeim sökum. Ólöglegt er að selja DNP til manneldis vegna alvarlegra aukaverkana sem því fylgja og geta leitt til dauða. Þrátt fyrir það er enn verið að selja og neyta efnisins því það stuðlar að þyngdartapi hjá fólki.

DNP hefur áhrif á efnaskipti líkamans á þann hátt að í stað þess að orka sé nýtt af frumum líkamans eða varðveitt þar, þá breytist hún í varma. Við þetta hækkar líkamshiti og við það getur einstaklingur látist.

Fyrstu einkenni eitrunar eru svitamyndun, vöðvaverkir, hraður púls, hár hiti og öndunarerfiðleikar. Einstaklingar bregðast þó mismunandi við efninu og erfitt getur verið að spá fyrir um hvernig hver og einn bregst við efninu og hvaða skammtur sé öruggur. Sumir geta fengið alvarlegar aukaverkanir af inntöku lítils magns af efninu og því er engin örugg skammtastærð.

Mast útilokar ekki að íslenskir neytendur hafi keypt vörur sem innihalda efnið þar sem hægt er að nálgast DNP á vefnum.

Mast hvetur neytendur til að vera gagnrýnir í hugsun þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um innihaldsefni þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×