Tónlist

Bara Heiða með nýtt Þjóðhátíðarlag: Gæti verið týnd systir þeirra Jónssona

Bara Heiða verður væntanlega á Þjóðhátíð í ár.
Bara Heiða verður væntanlega á Þjóðhátíð í ár.
„Lagið varð til fyrir mörgum árum þegar ég og vinkona mín María Sólveig Gunnarsdóttir vorum að vaka alla sumarnóttina til að fara í sólbað morguninn eftir. Lagið hefur líklega verið undir þónokkrum áhrifum svefngalsa og koffíndrykkju þegar það fæddist undir morgun,“ segir tónlistarkonan Heiða Dóra Jónsdóttir, betur þekkt sem Bara Heiða um nýtt Þjóðhátíðarlag sem hún frumsýnir á Vísi í dag. Lagið ber nafnið Setjumst að sumbli.

„Ég endurskrifaði lagið svo í garðinum hjá Hildi frænku minni með fallegu útsýni yfir Heimaklett fyrir örfáum árum síðan. Titillinn vísar í fyrsta þjóðhátíðarlagið sem var samið árið 1933 og ég tók líka síðustu setningarnar í þeim texta og notaði í laginu mínu. Yrkisefnið er hið sama: Drykkja í Herjólfsdal.“

Hún segist hafa ákveðið fyrir þónokkru að gefa út lagið en svo vildi skemmtilega til að textinn kallast töluvert á við þjóðhátíðarlag þeirra Jóns Jónsonar og Friðriks Dórs.

„Ég er reyndar líka Jónsdóttir, kannski bara týnd systir,“ segir Heiða létt og bætir við: „En lögin hljóma eins og þau séu eftir aðila sem hafa samið þau til hvors annars. Hrein og klár, en afar skemmtileg tilviljun þar á ferð.“

Myndbandið var tekið upp fyrir tveimur árum síðan.

„Ég og Gary Donald, vinur minn sem er írskur kvikmyndatökumaður, fórum á Þjóðhátið og tókum upp efnið þar. Ég á ættir að rekja til Vestmannaeyja, þar sem langamma mín Helga Jó var hjúkrunarkona í Eyjum. Vestmannaeyjar eru í miklu uppáhaldi hjá mér, enda heimsins fallegasti staður.“

Hér að neðan má sjá myndbandið við lagið.


Tengdar fréttir

Jónssynir semja Þjóðhátíðarlagið

Friðrik Dór og Jón Jónssynir munu semja Þjóðhátíðarlagið í ár. Stefna á að gefa tvö lög út þann 8. júní en það verður í fyrsta sinn sem Þjóðhátíðarlögin verða tvö. Tíðir gestir á sviðinu í Herjólfsdal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×