Innlent

Elísabet Ronaldsdóttir skilar fálkaorðunni: "Get ekki verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara“

Birgir Olgeirsson skrifar
Elísabet Ronaldsdóttir.
Elísabet Ronaldsdóttir. Vísir/EPA
„Ég get ekki verið í riddaraklúbbi með kynþáttahatara,“ segir kvikmyndagerðarkonan Elísabet Ronaldsdóttir í bréfi til orðunefndar forsetaembættisins. Þar lýsir hún því yfir að hún hafi ákveðið að skila heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu því Pia Kjærsgaard, forseti danska þjóðþingsins, hefði verið afhentur stórriddarakross frá Íslendingum.

Elísabet hefur getið sér gott orð sem kvikmyndaklippari og hefur meðal annars klippt stórmyndir á borð við Deadpool 2, Atomic Blond og John Wick.

Hún hefur einnig klippt fjölda mynda eftir leikstjórann Baltasar Kormák. Þar á meðal Mýrina, Reykjavík Rotterdam, Brúðgumann, Djúpið, Inhale, Contraband ásamt sjónvarpsþáttaröðinni vinsælu Ófærð.

Forseti Íslands veitti Pi Kjærsgaard, forseta danska þjóðþingsins, stórriddarakross í tilefni af opinberri heimsókn forseta Íslands til Danmerkur í janúar í fyrra.

Elísabet segist hafa orðið þess aðnjótandi að fá heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, fyrir störf að íslenskir og alþjóðlegri kvikmyndagerð, í janúar árið 2016.

„Ég tók mér nokkurn tíma til umhugsunar því margur svartur sauðurinn hefur þegið sömu viðurkenningu og þó ég sé almennt lítið gefin fyrir heiðursmerki, hugsaði ég hlýtt til þeirra sem tilnefndu mig og töldu mig hennar verðuga. Ég tók því að lokum stolt við orðunni, fyrir hönd kynsystra minna í bransanum og fjölskyldunnar sem hefur fylgt mér gegnum allt,“ segir Elísabet í orðsendingu sinni til orðunefndar forsetaembættisins sem hún birtir á Facebook-síðu sinni.

Hún segist hafa komist að því nýlega að Kjærsgaard hefði fengið stórriddarakrossinn en Elísabet segir hana vera trúlega „hættulegasta og mest sjarmerandi kynþáttahatara“ norrænna stjórnmála.

„Það hefur alltaf verið þörf en nú er nauðsyn að taka skýra afstöðu gegn kynþáttahatri og fasisma sem fer sem eldur í sinu um bæði Evrópu og Norður Ameríku og því hef ég ákveðið að senda ykkur til baka mína fálkaorðu. Henni er hér með skilað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×