Erlent

Trump íhugar að afturkalla öryggisheimildir háttsettra gagnrýnenda sinna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar nú að afturkalla öryggisheimildir sex fyrrverandi háttsettra embættismanna, þ. á m. öryggisheimildir John Brennan, fyrrverandi yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar CIA, og James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

Sarah Huckabee-Sanders, talskona Hvíta hússins, greindi frá mögulegum fyrirætlunum forsetans á blaðamannafundi í dag. Til viðbótar við Brennan og Comey eiga fjögur til viðbótar á hættu að missa öryggisheimildir sínar en það eru þau James Clapper, fyrrverandi yfirmaður njósnamála í Bandaríkjunum, Andrew McGabe, fyrrverandi aðstoðarforstjóri FBI, Susan Rice, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi og Michael Hayden, fyrrverandi yfirmaður CIA.

Sjá einnig: Öryggisheimild tengdasonarins afturkölluð

Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa gagnrýnt ríkisstjórn Trumps og sagði Sanders óánægju forsetans vegna þeirrar gagnrýni ástæðu fyrir vangaveltum hans nú. Hún sagði sexmenningana hafa nýtt sér stöðu sína sem embættismenn til að leggja „tilhæfulausar ásakanir“ á hendur Bandaríkjaforseta, einkum um Rússarannsókn Roberts Muellers.

Haft var eftir James Clapper og John Brennan í nóvember í fyrra að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, væri að spila með Trump.Vísir/GETTY
Þá gat Sanders ekki sagt til um það hvenær Trump myndi taka ákvörðun um öryggisheimildir áðurefndra embættismanna. Bent hefur verið á að öryggisheimildir tveggja þeirra, Comey og McGabe, hafi nú þegar verið afturkallaðar. Trump rak þann fyrrnefnda með miklum látum í maí í fyrra og sá síðarnefndi hætti óvænt í janúar síðastliðnum.

Þegar æðstu embættismenn á borð við þá sem hér hafa verið nefndir láta af störfum er þeim venjulega veitt áfram öryggisheimild, einkum til þess að eftirmenn þeirra í embætti geti ráðfært sig við þá um ýmis málefni tengdum starfinu. Trump væri því að feta afar ótroðnar slóðir, láti hann verða af því að afturkalla öryggisheimildirnar.

CNN hafði eftir Clapper strax eftir fundinn í dag að honum þætti vangaveltur forsetans „smásálarlegar“. Hayden sagði hins vegar að ákvörðun Trumps um afturköllun öryggisheimildar hefði afskaplega lítil áhrif á sig ef til hennar kæmi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×