Erlent

Vitni tóku skemmdarverkið upp á myndband

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stjarnan er gjörónýt.
Stjarnan er gjörónýt. Twitter
Dægurmálarisinn TMZ hefur birt myndband af manni á þrítugsaldri að stórskemma stjörnu Donalds Trump á Hollywood Boulevard í Los Angeles.

Vísir greindi frá skemmdarverkunum í gærkvöldi. Maðurinn, hinn 24 ára gamli Austin Clay, réðst að stjörnunni með sleggju, haka og loftpressu aðfaranótt miðvikudags. Clay var jafnframt í fullum verkamannaskrúða og hafði komið fyrir umferðarkeilum og skiltum í kringum stjörnuna.

Öryggisverðir á staðnum lögðu ekki í manninn þar sem þeir voru óvopnaðir og leist ekki á að yfirbuga mann sem fór hamförum með haka á miðri götunni.

Sjá einnig: Í vondum málum eftir að mölva Hollywood stjörnu Donalds Trump í dag

Þá var fjöldi vitna að aðförinni en ekkert þeirra skarst í leikinn. Clay fékk því óáreittur að athafna sig þangað til að hann hringdi sjálfur á lögregluna og gaf sig fram.

TMZ greinir jafnframt frá því að James Otis, maðurinn sem reyndi að skemma stjörnu Trump árið 2016, hafi ákveðið að greiða 20 þúsund dala tryggingu fyrir Clay - svo að hann geti verið frjáls ferða sinna þangað til að aðalmeðferð hefst í máli hans.

Ætla má að Clay verði ákærður fyrir gróf eignaspjöll, sem telst alvarlegur glæpur vestanhafs.

Myndbandið af skemmdarverkum Clay má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×