Erlent

Þvinganir gegn Tyrkjum þar til bandarískum presti verður sleppt

Samúel Karl Ólason skrifar
Presturinn Andrew Brunson hefur setið í fangelsi í Tyrklandi í eitt og hálft ár.
Presturinn Andrew Brunson hefur setið í fangelsi í Tyrklandi í eitt og hálft ár. Vísir/AP
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, ætla að beita umfangsmiklum viðskiptaþvingunum gegn Tyrklandi. Það verður gert þar til þeir sleppa bandaríska prestinum Andrew Brunson, sem hefur verið fangelsaður í Tyrklandi fyrir njósnir og aðkomu að hryðjuverkastarfsemi.

Trump sagði frá þessu á Twitter í dag og krafðist hann þess að Brunson yrði sleppt hið snarasta. Mike Pence, varaforseti Trump, hafði þá skömmu áður sagt frá hinum ætluðu þvingunum.

Handtaka Brunson, sem hafði búið og starfað um árabil í Tyrklandi, hefur valdið deilum á milli Bandaríkjanna og Tyrklands. Hann var handtekinn í október 2016 en réttarhöld gegn honum hófst fyrr á árinu. Nú nýverið var hann færður í stofufangelsi vegna heilsubrests. Hann hafði þá setið í fangelsi í eitt og hálft ár.

Sjá einnig: Umdeild réttarhöld hafin í Tyrklandi



Til stóð að sleppa honum úr haldi í síðustu viku, samkvæmt Reuters, eftir viðræður embættismanna ríkjanna tveggja. Hins vegar varð ekkert úr því og eftir að Pence ræddi málið við Trump ákváðu þeir að beita þvingunum gegn Tyrklandi.



Bandaríkin og Tyrkland eru bandamenn í Atlantshafsbandalaginu.

Brunson var um tíma sakaður að hafa komið að valdaránstilraun í Tyrklandi sumarið 2016, sem misheppnaðist. Klerkurinn Fatah Gulen, sem er í útlegð í Bandaríkjunum, hefur verið sakaður um að hafa skipulagt valdaránið misheppnaða en Bandaríkin hafa neitað að framselja hann án sannanna.

Því hefur verið haldið fram að Tyrkir hafi í raun tekið Brunson í gíslingu en Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur margsinnis sagt Tyrkland tilbúið til að skipta á Brunson og Gulen.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×