Sport

Breskur ólympíufari lést á átján ára afmælisdaginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ellie Soutter er fallin frá.
Ellie Soutter er fallin frá. mynd/team gb
Ellie Soutter, 18 ára gömul bresk afrekskona í snjóbrettaíþróttum, lést á miðvikudaginn. BBC greinir frá en dánarorsök hefur ekki verið gefin upp. Hún lést á afmælisdegi sínum.

Soutter var ein af efnilegustu vetraríþróttamönnum Bretlands en hún vann brons fyrir Breta á vetrarólympíuleikum æskunnar í fyrra og var fánaberi við lokaathöfn leikanna.

Hún var fyrr í þessum mánuði kölluð inn í A-landslið Bretlands fyrir Evrópumótaröðina í snjóbrettaíþróttum og var fastlega búist við að hún myndi vera í ólympíuliði Breta árið 2022.

Soutter var við æfingar í Evrópu og lést nálægt heimili sínu í Frakklandi en sem fyrr segir er ekki vitað hvernig dauðdaga hennar bar að.

„Ég er svo stoltur af þessari ungu konu. Þessi vondi heimur tók sálufélaga minn frá mér á 18 ára afmælisdaginn. Ég mun sakna þín meira en þú getur ímyndað þér. Hvíldu í friði litli meistarinn minn,“ skrifar faðir hennar á Facebook.

Breskir vetraríþróttamenn hafa keppst við að minnast hinnar ungu Soutter á samfélagsmiðlum eftir að fréttir af andláti hennar fóru að berast.

„Það er sorglegt að heyra þessar fréttir. Þú varst frábær stelpa. Þú var frábær liðsfélagi sem fékkst mig til að brosa á hverjum degi. Ég á eftir að sakna þín svakalega,“ skrifaði Emily Sarsfield, margfaldur meistari í skíðafimi, á Facebook-síðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×