Fótbolti

Arnór Ingvi skoraði í öruggum sigri Malmö

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Arnór Ingvi fagnar fyrsta markinu sem hann skoraði fyrir Malmö.
Arnór Ingvi fagnar fyrsta markinu sem hann skoraði fyrir Malmö. vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason skoraði eitt marka Malmö sem fór langt með að tryggja sig áfram í aðra umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu með 0-3 útisigri á Drita.

Carlos Strandberg kom Malmö á bragðið strax á 22. mínútu áður en íslenski landsliðsmaðurinn bætti við öðru marki Malmö undir lok fyrri hálfleiks eftir undirbúning frá Markus Rosenberg.

Rosenberg skoraði sjálfur þriðja markið á 82. mínútu.

Sænsku meistararnir snúa því heim til Svíþjóðar með þriggja marka forystu gegn meisturnum frá Kósovó og þarf mikið að gerast til þess að Malmö fari ekki áfram í aðra umferð.

Skosku meistararnir í Celtic eru einnig svo gott sem komnir áfram í aðra umferð eftir 0-3 útisigur á Alashkert í Armeníu. Odsonne Edouard, James Forres og Callum McGregor skoruðu mörk Celtic.

Celtic, eða Alashkert nái liðið ótrúlegum sigri í seinni leiknum í Skotlandi, mætir sigurvegaranum úr viðureign Vals og Rosenborg í annari umferð.

Valur tekur á móti norsku meisturnum annað kvöld og hefst leikurinn klukkan 20:00. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×