Fótbolti

Óli Jóh: Setjum mikið púður í þetta

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur Jóhannesson var léttur í lund í gær
Ólafur Jóhannesson var léttur í lund í gær Mynd/Stöð2 Sport
Valur mætir Rosenborg í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu á Hlíðarenda í kvöld. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir markmiðið að halda markinu hreinu.

„Stemmingin er mjög góð. Þetta er það sem alla fótboltamenn á Íslandi dreymir um, að fá að taka þátt í Evrópukeppninni, og þessi tími árs hjá okkur er alltaf mjög skemmtilegur,“ sagði Ólafur á blaðamannafundi fyrir leikinn í Fjósinu á Hlíðarenda í gær.

„Við höfum nálgast þessa leiki á margan hátt. Stundum höfum við bara farið og látið vaða á okkar fótbolta en núna ætlum við að reyna að verjast vel og halda markinu okkar hreinu.“

„Við höfum fengið á okkur mörk í heimaleikjunum undan farin ár og ætlum að reyna að loka fyrir það núna. Við setjum mikið púður í þetta.“

Tvísýnt er með þáttöku Hauks Páls Sigurðssonar, fyrirliða Vals, í leiknum en ákvörðun um það hvort hann spili leikinn verður tekin í dag. Dion Acoff er enn ekki orðinn leikfær.

„Allir aðrir eru heilir og tilbúnir þannig að ég get stillt upp mínu sterkasta liði.“

„Birkir kemur virkilega ferskur heim af HM, við vorum svolítið hræddir um það að það yrði smá sjokk fyrir hann en var það alls ekki og hann þekkir Norðmennina inn og út svo þetta verður gaman fyrir hann,“ sagði Ólafur Jóhannesson.

Leikur Vals og Rosenborg hefst klukkan 20:00 á Hlíðarenda og verður í beinni textalýsingu á Vísi. Leikurinn verður einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×