Erlent

Stormy Daniels handtekin

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stormy Daniels lögsótti Bandaríkjaforseta vegna þagnarsamkomulags sem þau gerðu með sér árið 2016. Forsetinn undirritaði hins vegar aldrei samkomulagið og því telur Daniels það vera ógilt.
Stormy Daniels lögsótti Bandaríkjaforseta vegna þagnarsamkomulags sem þau gerðu með sér árið 2016. Forsetinn undirritaði hins vegar aldrei samkomulagið og því telur Daniels það vera ógilt. Vísir/getty
Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels var í nótt handtekin á nektardansstað í Ohio-ríki í Bandaríkjunum að sögn lögmanns hennar, Michael Avenatti. Hann telur að pólitískir hvatar búi að baki handtökunni en Daniels hefur reynst Bandaríkjaforseta óþægur ljár í þúfu síðustu mánuði.

Lögmaðurinn greindi frá handtökunni á Twitter-síðu sinni í nótt. Avenatti segir að leikkonunni hafi verið gefið að sök að leyfa gestum nektardansstaðarins að snerta sig meðan hún dansaði fyrir þá. Það stríðir hins vegar gegn lögum Ohio-ríkis. Avenatti segir að Daniels hafi verið leidd í gildru, málið lykti af örvæntingu og pólitískum hvötum. „Við munum berjast gegn öllum fáránlegum kærum,“ skrifar Avenatti.

Stormy Daniels segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Donald Trump, núverandi Bandaríkjaforseta, árið 2006. Trump hefur ætíð neitað fyrir sambandið. Hann greiddi henni engu að síður 130 þúsund dali árið 2016, skömmu fyrir forsetakosningarnar vestanhafs. Daniels segir að með greiðslunni hafi hann reynt að kaupa þögn hennar um sambandið, enda kynni það að hafa haft áhrif á kosningabaráttuna.

Daniels var að dansa á staðnum Siren í borginni Columbus í gærkvöldi þegar hún var snert á „ókynferðislegan hátt,“ eins og Avenatti orðar það í samtali við fréttastofu AP. Lög í Ohio banna hverjum þeim sem er ekki náinn fjölskyldumeðlimur að snerta léttklædda eða nakta dansara.

Daniels var handtekin að dansinum loknum og flutt á lögreglustöð. Búist er við því að hún verði kærð fyrir blygðunarsemisbrot og verði látin laus gegn greiðslu tryggingar.

Avenatti er æfur. „Hún var leidd í gildru. Það er fáránlegt að takmörkuðum fjármunum lögreglunnar sé varið í það að sitja um áhorfendur sem gætu snert dansara á ókynferðislegan hátt,“ er haft eftir Avenatti.

Lögreglan í Columbus hefur ekki enn tjáð sig um málið. Lögsókn Daniels gegn Bandaríkjaforseta og fyrrverandi lögmanni hans, Michael Cohen, er enn til meðferðar fyrir bandarískum dómstólum.


Tengdar fréttir

Sannfærður um að Trump segi af sér

Lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels er ekki í vafa um að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, muni ekki sitja út allt kjörtímabil sitt.

Íhugar framboð gegn Trump

Lögmaðurinn Michael Avenatti, sem varið hefur hagsmuni klámstjörnunnar Stormy Daniels í málarekstri hennar gegn Bandaríkjaforseta, íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram gegn Donald Trump, sækist hann eftir endurkjöri í forsetakosningunum árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×