Skoðun

Rógburður stangveiðimannsins

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag skrifar Pálmi Gunnarsson, stangveiðimaður, um laxeldi í sjó og þar stendur eftirfarandi:

„Hér sjanghæjuðu fiskeldisfyrirtækin talsmann beint úr ylvolgum stól þingforseta, fyrrverandi þingmanninn og ráðherrann Einar K. Guðfinnsson, og eitthvað hefur Kristinn H. Gunnarsson verið að gaufa á hliðarlínunni.“

Hér er valið að gefa sterklega í skyn að þátttaka mín í opinberri umræðu um laxeldi í sjó séu til þess að þjóna hagsmunum fiskeldisfyrirtækja. Á öðrum vettvangi hefur Pálmi Gunnarsson gengið lengra spurt um greiðslur frá fiskeldisfyrirtækjum til mín. Þessu hef ég áður svarað opinberlega en Pálmi heldur áfram með dylgjurnar. Endurteknar dylgjur er varla hægt að kalla annað en rógburð.

Hvort tveggja er rangt. Ég skrifa um málið algerlega út frá eigin forsendum og skoðunum. Fiskeldisfyrirtækin koma þar hvergi nærri, hafa ekki farið fram á það né hefur þeim staðið það til boða. Sem ritstjóri blaðsins Vestfirðir hef ég tekið málið til umfjöllunar og leitast við að kynna bæði sjónarmið, einkum með birtingu fjölmargar aðsendra greina. Í ritstjórnargreinum hef ég reifað viðhorf mín og tek þar einarða afstöðu með laxeldinu á Vestjörðum.

Pálmi Gunnarsson og reyndar margir fleiri andstæðingar laxeldis á Vestfjörðum hafa verið ósparir á að bera sakir og dylgjur á þá sem hafa haft sig í frammi fyrir atvinnuuppbyggunni á Vestfjörðum. Það er dapurlegt hvernig umræðan hefur þróast á síðustu árum. Í hópi stangveiðimanna er greinilega ósvífinn hópur málafylgjumanna sem setur sér ekki eðlileg mörk í umræðunni.


Tengdar fréttir

„Það fylgir þessu birta og gleði...“

Þessa setningu fékk Einar K. Guðfinnsson, stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva, að láni á dögunum frá fiskmatskonu á Djúpavogi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×