Erlent

Segir ólykt af FRET-frumvarpi forsetans

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það blæs um Donald Trump og eiginkonu hans Melaniu.
Það blæs um Donald Trump og eiginkonu hans Melaniu. Vísir/getty
Fregnir af því að Donald Trump hafi í hyggju að draga Bandaríkin úr Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og innleiða þess í stað nýja löggjöf hafa vakið töluverða kátínu. Úrsögnin sjálf telst þó ekkert sérstaklega fyndin - þvert á móti telja margir að hún gæti haft neikvæð áhrif á bandarískan efnahag - heldur er það nafn hinnar nýrru löggjafar sem kveikt hefur í netverjum.

Vefsíðan Axios greindi frá því að hún hefði undir höndum uppkast að nýju löggjöfinni, sem fengið hefði nafnið Fair and Reciprocal Tariff Act, sem í lauslegri og lélegri þýðingu blaðamanns væri Frjálsari, Réttlátari og Endurgjaldandi Tollalöggjöfin. Nafnið sjálft telst harla hefðbundið vestanhafs - en skammstöfun löggjafarinnar er þó sögð einstaklega óheppileg: FART, eða FRET á íslensku.

Löggjöfin, sem sögð er fela í sér fyrrnefnda úrsögn ásamt heimild fyrir forsetann til að setja og afnema tolla eftir eigin höfði - án þess að bera þá undir þingið - myndi gjörbreyta stöðu Bandaríkjanna innan alþjóðaviðskiptanna.

Hinn skammlífi talsmaður Hvíta hússins, Anthony Scaramucci, segir þannig að innleiðing löggjafarinnar myndi bitna á bandarískum neytendum. Hann hvetur fyrrverandi vinnuveitendur sína til að hverfa frá vegferð sinni í efnahagsmálum - sem einkennist af einangrunarhyggju og tollahækkunum. Hann, rétt eins og hundruð annarra netverja, getur heldur ekki hamið sig við að grínast með nafngift löggjafarinnar. Hann segir einfaldlega að það sé „ólykt“ af henni.

Tvennt er þó ennþá óljóst. Tilvist frumvarpsins hefur ekki verið staðfest af Hvíta húsinu og því kann þetta brandaraupphlaup að vera tilefnislaust. Eðli málsins samkvæmt liggur því ekkert fyrir um nákvæm efnisatriði frumvarpsins.

Að sama skapi er ekki vitað hvort, ef frumvarpið er raunverulegt, að skammstöfunin sé tilviljun eða útpæld. Þetta mun líklega ráðast á næstu dögum.

Þangað til geta netverjar nýtt tækifærið og búið til margvíslega og misgóða prumpubrandara.


Tengdar fréttir

Tollahækkun ESB tekur gildi

Tollar Evrópusambandsins á fjölda bandarískra vara voru formlega innleiddir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×