Skoðun

Eistun afdrifaríku

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Aldrei hafði ég séð stærri eistu á ævinni. Þau voru á stærð við snjóbolta. Voru þau komin undan göltum en voru í kjötborði einu þegar þessi saga hefst. Ekki girntist ég hreðjar þessar en forvitnin fór hins vegar úr böndum svo ég keypti tvö stykki. Ekki er laust við að ég hafi fundið til í mínum meðan kjötvinnslukonan skar þær í fínar sneiðar meðan hún útlistaði fyrir mér hvernig ég ætti að bera mig að við matseldina.

Þegar heim kom þótti fjölskyldunni mér hafa farist óhönduglega við innkaupin. Brást ég við af þrjósku og kvað þetta vera hið besta hollustufæði. Úr varð að ég var látinn éta eistun einn meðan aðrir létu í sig amerískt léttmeti. Þurfti ég að taka á allri minni þrákelkni til að klára herlegheitin.

Eftirköstin komu svo í ljós þegar ég var að aka um sveitir og kom auga á flutningabíl mikinn með svín á leið til slátrunar. Fannst mér ég aldrei hafa litið föngulegri gyltur. Áður en ég vissi af var ég farinn að elta þessar ferfættu kynbombur. Til að réttlæta hegðun mína minntist ég þess að íslenskur landbúnaðarráðherra hefði eitt sinn gerst heitfengur við svipaðar aðstæður og kysst búkollu á trýnið og varð hann afar vinsæll fyrir vikið. Ekki taldi ég þó mitt frumhlaup líklegt til vinsælda. Ákvað ég því að sitja á strák mínum en horfa bara á þátt með Prúðuleikurunum í staðinn. Svínka kom grátlega lítið við sögu.

Aðrar aukaverkanir eru þær að ég er farinn að ýkja helst til mikið. Hins vegar eru það engar ýkjur að næst ætla ég að játa auðfúslega misfarir mínar, í innkaupum sem og öðru, og bregðast síður við þeim með þrjósku.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×