Fótbolti

Úkraínskt ungstirni í markið hjá Real Madrid

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Andriy Lunin
Andriy Lunin vísir/getty
Spænska stórveldið Real Madrid er að ganga frá kaupum á úkraínska ungstirninu Andriy Lunin. Spænski fjölmiðillinn Marca greinir frá því að búið sé að ganga frá kaupunum en Evrópumeistararnir eiga enn eftir að gefa út tilkynningu þess efnis.

Lunin þykir einn allra efnilegasti markvörður heims en hann á tvö tímabil að baki í úkraínsku úrvalsdeildinni þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall. Lunin er 191 sentimetri á hæð.

Hann kemur til Real Madrid frá Zorya en hóf sinn meistaraflokksferil hjá Dnipro. Samkvæmt heimildum Marca borgar Real Madrid fjórtán milljónir evra fyrir Lunin.

Lunin var á varamannabekk Úkraínu þegar liðið heimsótti Laugardalsvöll í undankeppni HM í Rússlandi á síðasta ári en lék nýverið sinn fyrsta A-landsleik fyrir Úkraínu.

Spænskir fjölmiðlar telja að, þrátt fyrir kaupin á Lunin, sé Real Madrid enn að gera sér vonir um að fá brasilíska landsliðsmarkvörðinn Alisson frá Roma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×