Lífið

Tísti um „lága greindarvísitölu“ De Niro en gerði sjálfur stafsetningarvillu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti notar gjarnan Twitter til að skjóta á pólitíska andstæðinga sína.
Donald Trump Bandaríkjaforseti notar gjarnan Twitter til að skjóta á pólitíska andstæðinga sína. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti skaut á bandaríska leikarann Robert de Niro á Twitter í kvöld eftir að sá síðarnefndi formælti forsetanum á sviði þegar Tony-verðlaunin voru afhent á sunnudagskvöld. Athygli vekur að Trump sagði de Niro með „lága greindarvísitölu“ en gerði sjálfur stafsetningarvillu í tísti sínu.

„Robert de Niro, einstaklingur með mjög lága greindarvísitölu, hefur hlotið of mörg högg á höfuðið af hendi alvöru hnefaleikamanna í kvikmyndum,“ skrifaði Trump í tísti sem birtist á Twitter-reikningi hans í kvöld. Glöggir sjá að forsetinn stafsetur þar orðið „too“, sem á íslensku útleggst sem „of“, með einu o-i þar sem ættu að vera tvö.

„Ég horfði á hann í gærkvöldi og ég trúi því í einlægni að hann gæti verið „vankaður“ (e. punch-drunk),“ bætti Trump við.

Tíst Trumps, með stafsetningarvillunni, sem hann birti í gær. Tístunum var eytt skömmu síðar og endurbirt, villulaus, daginn eftir.Skjáskot/Twitter
Þar vísaði Trump líklega til kvikmyndarinnar Raging Bull, sem kom út árið 1980, en þar fór de Niro með hlutverk hnefaleikakappans Jake LaMotta. Þá lék hann einnig hnefaleikamann í kvikmyndinni Grudge Match frá árinu 2013.

Ummæli de Niro um Trump voru ritskoðuð á sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum á sunnudagskvöld en hann fór þar ófögrum orðum um forsetann.

„Ég vil bara segja eitt. Svei Trump [e. Fuck Trump]. Þetta er ekki lengur niður með Trump. Þetta er svei Trump,“ sagði de Niro.

Þá notaði Trump, sem er nýlokinn við sögulegan fund sinn og Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, einnig tækifærið á Twitter í kvöld og hældi sjálfum sér fyrir velgengni í starfi. Þetta taldi Trump de Niro líklega ekki meðvitaðan um og bað leikarann, sem hann kallaði „Punchy“, að ranka við sér.

Uppfært 13. júní kl. 11:50:

Trump eyddi upphaflegu tístunum með stafsetningarvillunni skömmu eftir að hann birti þau. Ný tíst, án villunnar, litu dagsins ljós nú í morgun að íslenskum tíma en þau má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×