Erlent

Fyrrverandi kosningastjóri Trumps sendur í fangelsi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Manafort er meðal annars ákærður fyrir peningaþvætti og að skrá sig ekki sem málafylgjumaður erlends ríkis.
Manafort er meðal annars ákærður fyrir peningaþvætti og að skrá sig ekki sem málafylgjumaður erlends ríkis. Vísir/AFP
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hefur verið dæmdur til fangelsisvistar þar til réttarhöld yfir honum hefjast.

Manafort er meðal annars ákærður fyrir peningaþvætti og að skrá sig ekki sem málafylgjumaður erlends ríkis. Þá bætti Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum, við ákæruliðum á dögunum en Manafort hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á vitni í málinu.

Dómarinn Amy Berman Jackson sagði í dag að Manafort hefði misnotað traustið sem honum hefði verið sýnt og því væri ekkert annað í stöðunni en að senda hann í fangelsi.

Trump tjáði sig um málið á Twitter-reikningi sínum í dag og sagði fangelsisdóminn yfir Manafort ósanngjarnan. „Hvað með Comey og spilltu Hillary og alla hina?“ spurði Trump.

Manafort var kosningastjóri Trump um fimm mánaða skeið fram í ágúst árið 2016. Eftir að ásakanir komu fram um að Manafort hefði þegið milljónir á laun frá ríkisstjórn Viktors Janúkóvitsj í Úkraínu steig hann til hliðar.


Tengdar fréttir

Fyrrverandi tengdasonur aðstoðar við rannsókn á Manafort

Fyrrverandi tengdasonur Paul Manafort, sem eitt sinn var kosningastjóri Donald Trump, er sagður hafa náð samkomulagi við saksóknara vestanhafs sem kveður á um samstarfsvilja hans í tengslum við rannsókn á meintum brotum Manafort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×