Skoðun

Nú er ég orðinn nöðrubani

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Í fyrradag sýndist mér ég sjá rottuhala einn renna fimlega bak við strigapoka þegar ég var ásamt tengdó í skúr hans að hella bruggi á vínbelgi. Ég brást víkingalega við og reif pokann upp en þá blasti við mér snákur einn svipljótur. Vildi hann þó spara mér fundinn við sig svo hann flúði út í horn en þar gerði tengdó atlögu að dýrinu með göngustafinn á lofti. Hvæsti snákurinn þá svo hvein í skúrnum.

En aftur flúði sá ílangi en þá skipti engum togum að gamli ólífubóndinn, sem hafði flókaskó góða á fótum, steig á kvikindið aftanvert sem komst því hvergi. Var ég kvikur þá sem kúreki í einvígi og náði í rör eitt eigi all lítið og lamdi þann ílanga ofarlega svo nær tók af höfuðið og var það hans bani.

Var allt kjurt um stund og taldi ég óhætt að vinda sér í vínið og önnur tilfallandi landbúnaðarstörf sem gengu áfallalaust. Að þeim loknum vildi ég farga vágesti þessum og setti ég því plastpoka utan um puttana til að höndla dýrið. Vildi þá ekki betur til en svo að snákurinn tók upp fyrri hætti og skók ílangan skrokkinn eins og ungviði. Kunni ég þessu illa enda langt um liðið frá því ég hafði vegið snákinn.

Nú er freistandi að nota skáldaleyfið og halda því fram að hér hafi verið eiturnaðra mikil á ferðinni. En langnaðra þessi er reyndar alveg meinlaus. Ja, meinlaus, það er kannski ekki rétt að orða það svo því eftir fund þennan er ég svo hvekktur orðinn að ég sé ekki fram á að geta snert garðslöngu næstu árin né lagt mér nokkuð ílangt til munns. Eins og mér fannst nú spagetti gott.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×