Skoðun

Renta

Davíð Þorláksson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon sagði á Alþingi þegar hann mælti fyrir lögum um veiðigjald árið 2012: „Frumvarpið byggir […] á þeirri meginforsendu að náttúruauðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar og arður sem rekja má beint til þeirra, þ.e. að rentan tilheyri þjóðinni. Þegar öðrum er veittur réttur til að fénýta auðlindirnar ber að tryggja þann rétt þjóðarinnar með gjaldtöku?…“ Þótt ýmsar forsendur í þessu séu umdeilanlegar þá voru þetta forsendurnar sem lágu að baki gjaldinu. Veiðigjald væri því ekki hefðbundinn skattur og gjaldið ætti að fylgja afkomu greinarinnar.

Í mars tók Deloitte saman skýrslu um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja að beiðni ríkisins. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta dróst saman um 22% árið 2016 og útlit er fyrir að samdrátturinn hafi verið 20-37% árið 2017. En hvernig er best að mæla rekstur í sjávarútvegi? Veiðigjaldsnefnd hefur þróað spálíkan til að reikna út afkomu veiða með minni tímatöf en gert er í lögum um veiðigjald. Ef reiknistofn yrði lækkaður til samræmis við niðurstöðu líkansins myndi hann lækka um 35% í botnfiski og 15% í uppsjávarfiski.

Í ljósi þessa hefur meirihluti atvinnuveganefndar lagt fram frumvarp til að leiðrétta veiðigjaldið í takt við afkomu greinarinnar, þó minna en spálíkanið gefur til kynna. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að veiðigjald skili 8,3 milljörðum króna á þessu ári. Samkvæmt Fiskistofu námu álögð veiðigjöld 6,8 milljörðum á síðasta ári. Það hækkar því um 1,5 milljarða. Að sjálfsögðu standa þingmenn sem styðja tilvist veiðigjalds að þessari leiðréttingu. Ef þau gerðu það ekki væru forsendur gjaldsins brostnar.




Skoðun

Sjá meira


×