Skoðun

Reykjavík er okkar

Sif Jónsdóttir skrifar
Við búum á heilmiklum umbrotatímum í borginni. Það er eins og þörfin sé eins og flóðbylgja sem skellur á okkur og kallar á breytingar en við vitum ekki fyrir fram hve slagkrafturinn er mikill né hve þétt skellurinn lendir á okkur, dregur okkur með sér og krefst aðgerða. Það er stundum eins við skellinn þá bresti eitthvað í okkur og vellur fram og við viljum ekki stoppa það, því við finnum öll fyrir þörfinni, já þörfinni fyrir breytingu.

Miðbærinn okkar er að breyta um svip. Lágstemmda miðbæjarstemningin er að hverfa fyrir nýbyggingum sem eru úr takti við við þá bæjarmynd sem við ólumst upp við. Í framtíðinni verða háar kuldalegar glerbyggingar í meirihluta, því það á að markaðs- og nútímavæða miðbæinn með alþjóðamerkjum og neonskiltum. Ég hef séð teikningar og glærur og myndin er flott. En svo þegar byggingarnar eru komnar upp þá eru þær ekki eins aðlaðandi og fallega Stjórnarráðshúsið er eins og það hafi villst að heiman. Enn er nokkur bið á að byggingu í miðbænum ljúki og á meðan er miðbærinn vinnusvæði.

Við fylgjumst í fjarlægð með þessari breytingu á miðbænum okkar og við vonum að við munum meta þessar breytingar í framtíðinni. Höfuðborgarlistinn vill umhverfisvæna og hlýlega borg og það sem einkennir íbúa á að skína í gegn í uppbyggingu hennar. Við viljum hækka þjónustustig Reykjavíkurborgar og sinna íbúum borgarinnar. Borgarstjórinn á að vera sá sem hlustar á íbúana og sinnir þeim verkefnum sem eru mest aðkallandi. Grunnþjónusta sem borgin býður upp á á að vera til fyrirmyndar og starfsmenn borgarinnar eiga að finna fyrir jafnrétti ekki bara kynjabundnu heldur einnig jafnrétti í launum og starfi, því störfin sem borgin þarf að manna eru öll mikilvæg annars væru þau ekki til.

Sif Jónsdóttir skipar 2. sæti Höfuðborgarlistans.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×