Skoðun

Pólitík er forgangsröðun!

Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar
Garðabær er fjölskylduvænt og samheldið samfélag þar sem gott er að búa. Það er engin tilviljun að um 90% bæjarbúa eru ánægðir með þjónustu í leik- og grunnskólum bæjarins. Slíkur árangur og ánægja íbúa verður til af því að við forgangsröðum og leggjum m.a. áherslu á góða skóla og öflugt íþrótta- og tómstundastarf.

Val og vilji bæjarbúa

Í Garðabæ höfum við unnið að því að íbúar hafi val um fjölbreytta og ólíka valkosti er varða þjónustu sveitarfélagsins. Við hlustum á hvað íbúar vilja, tökum þjónustukannanir alvarlega og fylgjum því eftir hvað íbúar vilja að gert sé. Garðabær er fyrsta sveitarfélagið sem setur sér stefnu í íbúalýðræði og á þessu kjörtímabili hafa verið haldnir 39 opnir íbúa-, samráðs- og kynningarfundir eða fundur á sex vikna fresti að meðaltali.



Uppbygging og sterk fjárhagsstaða

Loforð og samráð eru til lítils ef fjárhagsstaðan er ekki í lagi. Góð þjónusta og uppbygging byggist á grunni sterkrar fjárhagsstöðu. Góð afkoma bæjarsjóðs og lækkandi skuldir gera okkur kleift að lækka álögur enn frekar. Í Garðabæ er uppbygging mikil, verið er að reisa búsetukjarna fyrir eldri borgara og fatlaða einstaklinga ásamt því að búið er að skipuleggja hverfi fyrir ungt fólk. Garðabær er eftirsóttur ekki aðeins vegna góðrar þjónustu heldur einnig vegna einstakrar náttúru og við höfum nú þegar friðlýst 40% af bæjarlandinu.



Lífsgæði

Sveitarfélögin bera ábyrgð á mörgum af mikilvægustu hagsmunamálum landsmanna og hafa því veruleg áhrif á lífsgæði okkar allra. Í Garðabæ höfum við lagt góðan og sterkan grunn þannig að hér geti áfram vaxið öflugt, metnaðarfullt og samheldið samfélag. Samfélag þar sem allir fá að njóta sín. Stjórnmál snúast um forgangsröðun og traust. Það að vera samkvæmur sjálfum sér og standa við gefin fyrirheit. Það höfum við gert - og ætlum gera áfram.

Höfundur er formaður bæjarráðs Garðabæjar og skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×