Skoðun

Reykjavík þarf atvinnustefnu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Pawel Bartoszek skrifar
Þau eru víða í borginni. Gömul verslunar- og þjónusturými sem nú standa auð eða hefur verið breytt í íbúðir. Við þekkjum þau sums staðar á stórum gluggum og breiðum inngöngum. Annars staðar til dæmis í Breiðholti eða í Árbænum má líka sjá gamla hverfiskjarna sem nú standa illa nýttir. Það væri frábært að lífga upp á þessa staði að nýju. En hvernig má gera það?

Af hverju hverfur þjónustan? Tökum raunverulegt dæmi um hverfisverslun sem deilir húsi með íbúð. Fasteignamat verslunarinnar er um 30 milljónir. Fasteignamat íbúðarinnar sem er jafnstór og verslunin er um 60 milljónir. Fasteignagjöld vegna verslunarinnar eru um 500 þúsund á ári. Fasteignagjöld vegna íbúðarinnar eru um 100 þúsund á ári.

Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að fasteignagjöld séu hærri á atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði. Staðan er engu að síður sú að ef eigandi verslunarinnar ákveður að hætta rekstri og fær að breyta húsnæðinu í íbúð þá getur hann tvöfaldað verðmæti eignarinnar og fengið 80% lækkun á fasteignagjöldum í leiðinni. 

Pawel Bartoszek
Hvatinn til að gera þetta er því svo sannarlega til staðar og skiljanlegt að þeir sem eigi húsnæðið vilji gjarnan fara þessa leið. En vandinn er að ef allir sem eiga atvinnuhúsnæði í hverfinu gera það þá hverfur öll þjónusta.

Viðreisn í Reykjavík hefur, eitt framboða, sett fram stefnu um að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði. Við ætlum að lækka þá í áföngum úr 1,65 í 1,60% á seinni hluta kjörtímabilsins. Þar með verða gjöldin þau sömu og í Kópavogi. Samkeppnisstaða Reykjavíkur mun batna.

Atvinnumál fá almennt lítinn sess í borgarkerfinu. Ekkert fagráð borgarinnar setur sérstakan fókus á atvinnumálin. Samkvæmt vefsíðu Reykjavíkurborgar veitir borgarsjóður styrki, m.a. til félags- og velferðarmála, skóla- og frístundamála, íþrótta- og æskulýðsmála, mannréttindamála og menningarmála. Hvergi er minnst á styrki til atvinnuþróunar.

Við í Viðreisn viljum að á árunum 2019-2021 verði 30 milljónum árlega varið í atvinnuuppbygginu í hverfum borgarinnar. Þar eigum við við samkeppnissjóði, þar sem hægt væri til dæmis að sækja um styrk til að breyta eða endurnýja atvinnuhúsnæði á stöðum þar sem þjónustan á undir högg að sækja eða hefur þegar lagst af.

Það á að vera einfalt að reka fyrirtæki í Reykjavík. Til þess ætlum við í Viðreisn að setja fé í atvinnuuppbyggingu, lækka fasteignaskatta, tryggja framboð af húsnæði undir nýjan rekstur og einfalda allar leyfaveitingar á vegum borgarinnar. Allar þessar aðgerðir munu skila sér í einfaldara rekstrarumhverfi reykvískra fyrirtækja. Þannig tryggjum við fjölbreytta atvinnu og þjónustu í öllum hverfum borgarinnar.

Höfundar skipa fyrsta og annað sæti á lista Viðreisnar í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×