Skoðun

Er heimili nú lúxusvara?

Hildur Björnsdóttir skrifar
Það er húsnæðisskortur í Reykjavík. Skorturinn hefur verið viðvarandi og endurspeglast í mikilli verðhækkun íbúða. Ungt fólk kemur ekki þaki yfir höfuðið og fjölskyldur flytjast til annarra sveitarfélaga. Aðgöngumiðinn á húsnæðismarkað er uppsprengdur.

Við viljum að Reykjavík verði besti búsetukosturinn. Samkeppnishæf borg á innlenda sem alþjóðlega vísu. Lausn húsnæðisvandans verður mikilvægur liður á þeirri vegferð. Auka þarf lóðaframboð og tryggja stórsókn í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík. Koma þarf jafnvægi á húsnæðismarkað og draga úr verðhækkunum.

Skortur á lóðum hefur haldið aftur af vexti í framboði nýrra íbúða. Þéttingarstefna núverandi meirihluta hefur einskorðast við miðborg. Æskilegt er að þétta byggð, en hana má þétta í fleiri hverfum, af virðingu við íbúa og umhverfi. Síðustu ár hefur eingöngu verið byggt á dýrum reitum og af miklum gæðum. Verðmiðinn hentar fyrstu kaupendum illa.

Húsnæðisvandinn hefur bitnað hvað mest á ungu fólki. Fjöldi ungs fólks á aldrinum 25-29 ára sem enn býr í foreldrahúsum hefur stóraukist síðustu tvö kjörtímabil. Eftirspurn eftir hagkvæmum einingum fyrir ungt fólk hefur ekki verið mætt. Eingöngu eru byggðar svokallaðar lúxusíbúðir sem ekki henta fyrstu kaupendum, og henta raunar mjög þröngum kaupendahópi. Helstu þörfum á íbúðamarkaði hefur ekki verið mætt. Núverandi meirihluti hefur gert heimili að lúxusvöru.

Markaðsrannsóknir á húsnæðismarkaði sýna breyttar þarfir nútímans. Flestir kjósa minni en vel skipulagðar einingar. Slíkar eignir, byggðar með hagkvæmni að leiðarljósi, myndu henta fyrstu kaupendum á húsnæðismarkaði vel. Hér þarf aukið samtal ríkis og borgar um einföldun regluverks.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hyggst úthluta hagstæðum lóðum á fjölbreyttum en lifandi svæðum í borginni. Við munum tryggja uppbyggingu hagkvæmra eininga sem svara raunverulegri þörf á húsnæðismarkaði. Við viljum styðja betur við ungt fólk og aðstoða við fyrstu skref inn á húsnæðismarkað. Við munum gera betur. Við viljum gera Reykjavík að besta búsetukostinum – raunhæfum valkosti fyrir okkur öll.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×