Fótbolti

„Myndi ekki taka Benzema og Bale fram yfir Firmino og Mane“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hin heilaga þrenning, eins og þessir þrír hafa stundum verið nefndir
Hin heilaga þrenning, eins og þessir þrír hafa stundum verið nefndir vísir/getty
Ein af fyrrum stórstjörnum Liverpool, Phil Thompson, segir sóknarþrenningu Liverpool vera betri og hættulegri heldur en sóknarafl Real Madrid.

Liverpool hefur skorað 40 mörk á leið sinni í úrslitaleikinn í Meisteradeildinni í Kænugarði. Mohamed Salah á 10 mörk líkt og Roberto Firmino og síðasti hluti þrenningarinnar, Sadio Mane, hefur skorað níu mörk.

Cristiano Ronaldo er með betri markatölu en þeir allir, hann er með 15 mörk. Meðspilarar hans eru þó ekki eins öflugir, Karim Benzema er með fjögur mörk og Gareth Bale aðeins eitt.

„Við erum almennt hraðari og hlaupin oftar gáfulegari. Sem þríeyki eru Firmino, Salah og Mane betri en fremstu þrír hjá Real Madrid,“ sagði Thompson við Sky Sports.

„Ég tæki Firmino fram yfir Benzema allan daginn. Bale hefur verið óstöðugur og farið inn og út úr liðinu allt tímabilið. Sá eini sem hefur verið stöðugur er Ronaldo, svo já ég tæki okkar sóknarþrenningu fram yfir þeirra.“

Liverpool mætir Real Madrid annað kvöld og reynir að koma í veg fyrir að Real fagni sigri í Meistaradeildinni þrjú ár í röð.

„Baráttan á miðsvæðinu verður lykilatriði. Casemiro, Luka Modric og Toni Kroos eru tæknilega allir mjög góðir en þeir eru ekki með sömu orku og James Milner, Jordan Henderson og Georginio Wijnaldum.“

„Það er algjört lykilatriði að verja fjærstöngina. Ronaldo og Bale sækja oft þar á og reyna að koma fyrir aftan bakverðina,“ sagði Phil Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×