Fótbolti

Henderson: Þetta snýst ekki um einn leikmann

Einar Sigurvinsson skrifar
Jordan Henderson fékk ekki að lyfta bikarnum eftirsótta í gær.
Jordan Henderson fékk ekki að lyfta bikarnum eftirsótta í gær. getty
„Þetta snýst ekki um hann eða mistökin sem hann kann að hafa valdið. Við vinnum sem lið og við töpum sem lið,“ sagði Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, eftir tap liðsins gegn Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í gær.

Loris Karius gerðist sekur um skelfilegt mistök í tveimur mörkum Real Madrid í leiknum, en Henderson brýndi fyrir mönnum að setja ekki sökina á markvörðinn.

„Þetta snýst ekki um einn leikmann, þetta snýst um alla og við vorum einfaldlega ekki nægilega góður í kvöld,“ sagði Henderson.

„Ég veit ekki alveg hvað gerðist í fyrsta markinu. En hjólhestaspyrnan, það var ekkert sem hann gat gert. Í þriðja markinu er mikil hreyfing á boltanum. Það er aldrei auðvelt.“

„Þetta er að sjálfsögðu vonbrigði. Mér fannst við gera vel að ná marki og komast aftur inn í leikinn. En við gerðum mistök og Madrid er frábært lið sem er alltaf að fara að refsa þér.“

Þá sagði Henderson að sigur Real Madrid hafi verið verðskuldaður.

„Þeir voru betra lið kvöldsins, en fyrstu 40 mínútur leiksins stjórnuðum við leiknum og fengum nokkur færi. Þetta er svekkjandi en það ber að hrósa Madrid,“ sagði Henderson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×