Fótbolti

Talaði ekki við hetjuna sína í þrjá tíma eftir úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane skrifaði nýjan kafla í sögu Meistaradeildarinnar á laugardaginn þegar hann gerði Real Madrid að meisturum þriðja árið í röð. Það hafði enginn afrekað áður.

Frakkinn getur þakkað hetjudáðum Gareth Bale fyrir að lið hans vann Meistaradeildina í þriðja sinn á þremur árum.

Gareth Bale kom inná sem varamaður og tryggði Real Madrid 3-1 sigur með tveimur mörkum. Fyrra markið skoraði Bale með stórglæsilegri hjólhestaspyrnu en það seinna með þrumuskoti af löngu færi sem fór í gegnum markvörð Liverpool.

Einhverjir myndu nú halda að Zinedine Zidane hafi verið ánægður með velska landsliðsmanninn og hafði faðmað hann og kysst í leikslok. Sannleikurinn var allt annar.

Metro hefur heimildir fyrir því Zinedine Zidane hafi ekki yrt á Bale í þrjá tíma eftir úrslitaleikinn.

Bale var ekki sáttur við að hafa byrjað á bekknum og sagði frá þeirri óánægju sinni í öllum viðtölum sínum eftir leik. Hann ýjaði einnig að því að hann væri á förum frá félaginu af því að hann vildi spila reglulega.

Bale hefur setið mikið á bekknum hjá Real Madrid á þessari leiktíð og ætlar greinilega ekki að láta að bjóða sér það aftur.

Hvort sem það voru þessi orð Bale í fjölmiðlum eða eitthvað annað þá sá Zinedine Zidane enga ástæðu til að tala við hetjuna sína í þrjá tíma eftir úrslitaleikinn i Kiev.

Það má sjá hetjudáðir Gareth Bale frá því á laugardaginn í spilaranum hér fyrir ofan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×