Skoðun

Reykjavíkurborg spilar á Hörpu

Eyþór Arnalds skrifar
Rekstrarvandi Hörpu hefur verið mikill frá upphafi. Helsti útgjaldaliðurinn er „húsnæðiskostnaður“ en hann hefur verið hærri en allur launakostnaður samanlagt. Fasteignagjöld Reykjavíkurborgar vega þarna þyngst. Eins og hjá heimilum og fyrirtækjum í Reykjavík hafa fasteignagjöldin hækkað gríðarlega síðustu fjögur árin. Margir hafa fengið 50% hækkun. Dæmi eru um yfir 100% hækkun.

Harpa er í eigu borgarinnar og ríkisins en húsið er hluti af menningarstarfsemi í Reykjavík. Til að ná tökum á rekstrinum hafa stjórnendur lækkað laun starfsfólksins sem lægst hafa launin. Má segja að lægst launaða starfsfólkið hafi tekið á sig skerðingu til að Harpa geti greitt Reykjavíkurborg hærri fasteignagjöld. Þetta er dæmi um það hvernig skattlagning Reykjavíkurborgar lendir á fólkinu.

Á sama tíma voru laun stjórnenda hækkuð. Þetta kemur ekki á óvart. Stjórnun Reykjavíkurborgar hefur falist í því að fjölga stjórnendum og stækka stjórnkerfið. Borgarstjórinn í Reykjavík er með hærri laun en borgarstjórinn í London. Eftir höfðinu dansa limirnir. Nú verður borgarfulltrúum fjölgað úr 15 í 23 og kerfið stækkar.

Ef núverandi meirihluti fær nýtt umboð í kosningunum verður áfram hlaðið undir yfirstjórn. Það er afar sérkennilegt að framboð sem kenna sig við jafnaðarmennsku skuli standa fyrir stækkun elítunnar á kostnað þeirra sem lægst hafa launin. Fólkið sem lægst hefur launin á ekki að borga fyrir hækkandi fasteignagjöld sem síðan eru notuð í að stækka yfirstjórn í Ráðhúsinu. Það er falskur tónn í þessu lagi.

Höfundur er borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×