Skoðun

Val verður vald þegar þú bætir við D-i

Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar

Valið er ein af meginstoðum í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Frelsið til að velja. Það er hlutverk okkar sem erum í stjórnmálum að veita einstaklingum tækifæri til þess að velja, velja það sem þeim hentar best. Við eigum að geta valið hvar við búum, hvernig við ferðumst á milli staða, hvar við göngum í skóla eða leitum eftir læknisþjónustu rétt eins og við veljum hverju við klæðumst og hvar við verslum.

Valið færir valdið til fólksins og í því felst hið raunverulega lýðræði. Þegar við bjóðum upp á ólíka valkosti, með valinu, færist valdið til einstaklinganna. Það hlýtur því að vera verkefni stjórnmálanna að auka val fólksins. 

Ég hef stundum velt þessu fyrir mér í umræðunni um lýðræði. Það er mikilvægt að við aukum íbúalýðræði en það er til lítils að halda ógrynni samráðsfunda og íbúaþinga, eða opna vefsvæði, ef fólk getur svo ekki valið um fjölbreytta valkosti, hvort sem er í dagvistun, skólum, tómstundum, heilbrigðismálum eða annarri þjónustu.

Samkeppni eykur gæði

Samkeppni í hvaða mynd sem hún er hreyfir við kerfinu. Þegar ekki eru einstaklingar eða verkefni í áskrift, heldur valkostir og möguleikar á að leita annað, þá aukum við metnaðinn og um leið gæðin. Það má ekki vanmeta mikilvægi ólíkra valkosta og frelsið til að velja. Við megum aldrei gleyma því fyrir hverja þjónustan er, að kerfið er til fyrir fólkið en fólkið ekki fyrir kerfið.

Í Garðabæ höfum við lagt áherslu einmitt á þetta. Fjölbreytni og ólíka valkosti og þar vegur valið í skólamálum þyngst. Þetta skiptir máli. Í Garðabæ höfum við líka lagt áherslu á lága skatta. Og þrátt fyrir allt tal um að lægri sköttum fylgi minni þjónusta er þjónustan góð í Garðabæ. Það góð að íbúar í Garðabæ eru ánægðastir allra með þjónustu í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Í mínum huga er ekki minnsti vafi á því að þetta grunnstef í stefnu Sjálfstæðisflokksins hefur sjaldan átt eins vel við og einmitt nú. Við eigum að lækka skatta, efla atvinnulífið og auka valkostir fyrir fjölskyldur í landinu.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar og skipar 1.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×