Innlent

Grundfirðingar ósáttir við að fá ekki að kjósa utan kjörfundar

Samúel Karl Ólason skrifar
Bæði L-listi Samstöðu og Sjálfstæðisflokkurinn í Grundarfirði hafa mótmælt þessari ákvörðun.
Bæði L-listi Samstöðu og Sjálfstæðisflokkurinn í Grundarfirði hafa mótmælt þessari ákvörðun. Vísir/Vilhelm
Íbúar í Grundarfirði eru ósáttir við þá ákvörðun Sýslumanns Vesturlands að ekki verði hægt að kjósa utan kjörfundar þar í bæ. Einungis verði boðið upp á þá þjónustu í Snæfellsbæ og í Stykkishólmi. Bæði L-listi Samstöðu og listi Sjálfstæðismanna og óháðra í Grundarfirði hafa mótmælt þessari ákvörðun og hafa jafnvel hvatt íbúa til að senda tölvupóst á embætti sýslumanns og hringja á skrifstofu hans til að mótmæla þessari ákvörðun.

Þá er talið að ákvörðunin muni koma niður á kjörsókn í sveitarfélaginu.

Ekki náðist í Ólaf Kristófer Ólafsson, sýslumann, við vinnslu fréttarinnar.

Í yfirlýsingu á Facebook segir Samstaða að bæjarstjóri Grundarfjarðar hafi mótmælt þessu fyrirkomulagi „eina ferðina enn“ við Dómsmálaráðuneytið og hafi hann fengið þau svör að sýslumaður hafi lokavald.

„Þetta er því algjörlega ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi að sniðganga Grundarfjörð og bjóða einungis upp á þjónustuna í Snæfellsbæ og í Stykkishólmi. Við mótmælum þessu harðlega og skorum á sýslumanninn að tilnefna hér kjörstjóra og trúnaðarmenn til þess að halda utan um utankjörfundaratkvæðagreiðslu.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig gripið til Facebook og hvatt íbúa til að mótmæla ákvörðuninni með því að hringja á skrifstofu Sýslumanns og senda tölvupóst á Ólaf með textanum:

„Hér með mótmælum við harðlega þeirri stefnu að útiloka Grundfirðinga í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í heimabyggð! Það er sorglegt að sýslumaður skuli ýta undir slæma kosningaþátttöku með þessu hætti. 

Hvetjum sýslumann til að endurskoða afstöðu sína! Kveðja Grundfirðingar“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×