Bíó og sjónvarp

Líður þegar eins og sigurvegara

Benedikt Bóas skrifar
Halldóra Geirharðsdóttir leikur kórstjóra á fimmtugsaldri, sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands þar til munaðarlaus stúlka frá Úkraínu stígur inn í líf hennar.
Halldóra Geirharðsdóttir leikur kórstjóra á fimmtugsaldri, sem ákveður að bjarga heiminum og lýsir yfir stríði gegn allri stóriðju í landinu. Hún gerist skemmdarverkamaður og er tilbúin til að fórna öllu fyrir móður jörð og hálendi Íslands þar til munaðarlaus stúlka frá Úkraínu stígur inn í líf hennar.
„Hvernig er hægt að vera annað en himinlifandi? Við erum öll í skýjunum,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri myndarinnar Kona fer í stríð sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

Í kvöld verður verðlaunaafhending þar sem mynd Benedikts er tilnefnd og ætlar hann að mæta rólegur til athafnarinnar enda líði honum þegar eins og sigurvegara. „Við, sem stöndum að myndinni, upplifum að við höfum þegar fengið verðlaun með þessum hlýju móttökum,“ segir hann stoltur.

Fréttablaðið var ekki eini miðillinn sem var búinn að ná í skottið á honum því það rigndi inn viðtalsbeiðnum, nánast á meðan þetta viðtal stóð yfir. „Ég er búinn að vera í stanslausum viðtölum að tala um myndina og land og þjóð.“

Benedikt Erlingsson leikstjóri
„Það er mikill áhugi á myndinni og það er gaman að finna að hún virðist ná til fólks af öðru þjóðerni en íslensku. Ég hlakka svo ofsalega til að sýna Íslendingum hana. Fá að upplifa hana hana með íslenskum áhorfendum því það er fullt af hlutum í henni sem útlendingar skilja ekki en er miðað beint að okkur.“

Halldóra Geirharðsdóttir, aðalleikkona myndarinnar, hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína. Benedikt segir að það komi sér ekkert á óvart. „Þetta er hasarmynd. Þetta er hetja að bjarga heiminum og hún þarf að gera ýmislegt erfitt. Halldóra gerir sín eigin áhættuatriði og ég lofa einum dropa af blóði,“ segir hann kíminn.

„Þegar maður hefur svona fína leikkonu sem vílar ekkert fyrir sér þá ganga hlutirnir vel. Franskar leikkonur hefðu aldrei látið bjóða sér þetta. Kannski er það þess vegna sem Frakkarnir eru svona hrifnir af þessari mynd og hennar frammistöðu.“ 

Umsagnir um myndina

Kona fer í stríð eða Woman at War var frumsýnd um helgina á Cannes Film Festival við frábærar undirtektir. Gagnrýnendur erlendra miðla, vef- og kvikmyndatímarita keppast nú um að hrósa myndinni. Halldóra Geirharðsdóttir tæklar líkamlega erfitt hlutverk af mikilli sannfæringu.

Screendaily

Kona fer í stríð mun að öllum líkindum kveðja sér hljóðs á kvikmyndahátíðum um allan heim. Kona fer í stríð er frábært dæmi um mynd sem dansar listilega á milli kvikmyndaflokka. Hvort tveggja í senn, grín og drama, með afar sterka meðvitund um hina marglaga baráttu við hnattræna hlýnun.

Cineuropa

Veftímaritið Cineuropa segir að Benedikt takist að skapa snilldarlega uppbyggða kvikmynd þar sem þyrildi og kindur mæta aðalsöguhetjunni á hugsjónavegferð hennar í fullkomnum ramma íslensks landslags.

Variety segir myndina takast á við gríðarmikilvæg umræðuefni á mannlegan og djúpstæðan hátt.


Tengdar fréttir

Fyrsta stiklan úr Kona fer í stríð

Nýjasta kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Konar fer í stríð, hefur verið valin til að taka þátt í Critics' Week á kvikmyndahátíðinni í Cannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×