Innlent

Framboð Eyþórs kostaði 4,9 milljónir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eyþór Arnalds leiðir lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí.
Eyþór Arnalds leiðir lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí. Vísir/Anton Brink
Framboð Eyþórs Arnalds í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins kostaði samtals rúmar 4,9 milljónir króna. Framlög til framboðsins voru rúmar 3,3 milljónir króna, þar af ein milljón sem Eyþór lagði sjálfur til, og er ógreiddur kostnaður framboðsins tæp 1,6 milljón króna. Þetta kemur fram í útdrætti úr uppgjöri framboðsins sem Eyþór skilaði til Ríkisendurskoðunar.

Þá kemur fram að bein framlög frá 31 einstakling, sem öll voru lægri en 200 þúsund krónur hvert, séu samtals 880 þúsund krónur.

Bein fjárframlög lögaðila að hámarki 400 þúsund krónur frá hverjum námu samtals 1,5 milljónum króna. Brekkuhús ehf. lét hæstu upphæðina af hendi rakna til framboðs Eyþórs eða 300 þúsund krónur. Eignarhaldsfélagið Hof ehf lagði fram 250 þúsund krónur og Kaupfélag Skagfirðinga og Mjólkursamsalan ehf 200 þúsund krónur hvor.

Eyþór sigraði með yfirburðum í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem haldið var 27. janúar síðastliðinn. Hann leiðir lista Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 26. maí næstkomandi.


Tengdar fréttir

Segir uppgjörið í borginni bara fallegt í fjarska

Ársuppgjör Reykjavíkurborgar er fallegt í fjarska en þegar betur er að gáð er ástæða til að hafa áhyggjur, segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×