Skoðun

Þetta reddast – en ekki af sjálfu sér!

Kristín Linda Árnadóttir skrifar

„Þetta reddast“ er frasi sem við Íslendingar eigum í skrýtnu sambandi við. Stundum erum við mjög ánægð með þá heimspekilegu hugsun sem kemur fram í frasanum. Vísum til þess að við séum bjartsýn og ráðumst í verkefni í stað þess að mikla þau um of fyrir okkur. Að hlutir hafi tilhneigingu til að reddast gæti líka verið afsprengi þeirrar hugsunar að við búum í mikilli nálægð við oft á tíðum óblíð náttúruöfl en mætum þeim galvösk þegar á reynir.



Á hinn bóginn heyrist stundum að „þetta reddast“ lýsi því hugarfari að við sjáum minni hvata en ella í að undirbúa það sem þarf að undirbúa. Séum jafnvel ekki best í heimi að gera langtímaáætlanir og sjáum e.t.v. takmarkaða ástæðu til að fara eftir slíkum áætlunum.



Í umhverfismálum er aftur á móti gerð mikil krafa um framsýni, enda hafa ákvarðanir sem við tökum í dag mikil áhrif á framtíðina. Gott dæmi úr fortíð okkar er hitaveituvæðing landsins sem hefur skilað þjóðarbúinu miklum sparnaði, lífsgæðum og þeirri staðreynd að við erum á toppi lista þjóða í heiminum sem nýta endurnýjanlega orku.



Þannig hafa margar ákvarðanir dagsins í dag áhrif til lengri tíma, ýmist til góðs eða ills. Það krefst langtímaáætlunargerðar að berjast gegn skaðlegum loftslagsbreytingum, þar duga engar reddingar. Nú liggur fyrir að við munum ekki ná að standa við Kýótó II skuldbindingar okkar. Við þurfum að endurskoða eigin neyslu og þannig getum við dregið nægilega úr losun til að ná markmiðum.



Til langframa felast lausnir á loftslagsvandanum því ekki í óbreyttri hegðun eða einungis stórtækum bindingaraðgerðum í skógrækt eða votlendi. Aukin binding er vissulega liður í því að stefna að kolefnishlutleysi en meginskuldbinding Íslendinga felst í því að draga úr neyslu og draga úr losun. Til að draga úr neyslunni og breyta henni þurfum við að breyta hugsun okkar.



Ekkert reddast – af sjálfu sér.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×