Fótbolti

Mark Söru Bjarkar upphafið að endurkomu Wolfsburg

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sara Björk skallar boltann í netið í dag
Sara Björk skallar boltann í netið í dag Vísir/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark Wolfsburg í sigri á Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna.

Chelsea fékk fullkomna byrjun á leiknum þegar Ji So-yun kom heimakonum yfir strax á 2. mínútu eftir frábæra baráttu Fran Kirby.

Það tók íslenska landsliðsfyrirliðann fimmtán mínútur að jafna fyrir Wolfsburg. Lara Dickenmann sendir boltann fyrir markið þar sem Sara stekkur hæst og nær þrumuskalla framhjá Hedvig Lindahl og í markið.

Alexandra Popp kom Wolfsburg svo yfir á síðustu mínútum fyrri hálfleiks með marki eftir fast leikatriði. Ekki er ljóst hvort Popp eigi markið, þó hún hafi viljað fá það skráð á sig, það gæti verið sjálfsmark Chelsea.

Wolfsburg kláraði svo leikinn með marki frá Dickenmann á 66. mínútu. Þýsku meistararnir fara með 3-1 útisigur fyrir seinni leikinn og verður að segjast að Sara Björk og stöllur geti farið að skoða flugmiða í úrslitaleikinn, það er aðeins formsatriði hjá þeim að klára þetta einvígi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×