Erlent

Afvopnaði nakta byssumanninn og bjargaði lífi Vöffluhússgesta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
James Shaw Jr. á blaðamannafundi í gær.
James Shaw Jr. á blaðamannafundi í gær. Vísir/Epa
Nakta byssumannsins, sem skaut fjóra til bana á veitingastaðnum Vöffluhúsinu (e. Waffle House) í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum í gærnótt, er enn leitað. Viðskiptavinur, sem afvopnaði árásarmanninn og hrakti hann á dyr, hefur hlotið mikið lof fyrir hetjudáðina.

Sjá einnig: Nakinn maður skaut þrjá til bana á veitingastað

Byssumaðurinn, sem talinn er vera hinn 29 ára Travis Reinking, var í grænum jakka einum klæða þegar hann réðst inn á veitingastaðinn snemma á sunnudagsmorgun að staðartíma. Hann skaut tvo til bana fyrir utan veitingastaðinn og tvo til viðbótar þegar inn á staðinn var komið.

Reinking fór úr jakkanum og lagði á flótta eftir árásina. Ekkert hefur spurst til hans síðan og eru skólar í Nashville í Tennessee margir hverjir á hæsta viðbúnarstigi í dag vegna leitarinnar.

Frá vettvangi í bænum Antioch í Bandaríkjunum í gær.Vísir/AFP
Þau Taurean C. Sanderlin, starfsmaður Vöffluhússins, Joe R. Perez, DeEbony Groves og Akilah Dasilva létust í árásinni. Þau voru öll á þrítugsaldri, að því er fram kemur í frétt bandarísku fréttastofunnar NBC.

Reinking framdi voðaverkið með AR-15-riffli, vopni sem bandarískir byssumenn hafa oft beitt í skotárásum þar í landi í gegnum tíðina.

Reinking var handtekinn þann 7. júlí síðastliðinn fyrir að fara inn á afgirt svæði í kringum Hvíta húsið í Washington í leyfisleysi. Í kjölfar handtökunnar lagði lögregla hald á skotvopn í eigu Reinking, þ.á m. AR-15-riffilinn sem hann notaði við árásina. Faðir Reinking hefur játað að hafa látið son sinn fá byssurnar aftur.

Í gær voru fluttar fréttir af því að viskiptavini á staðnum hefði tekist að afvopna árásarmanninn. Viðskiptavinurinn, hinn 29 ára gamli James Shaw Jr., sagði á blaðamannafundi í gær að hann hafi ákveðið að byssumaðurinn þyrfti að „hafa fyrir því að drepa hann.“

Shaw sagðist hafa látið til skara skríða þegar Reinking gerði hlé á skothríðinni.

„Ég kom höggi á hann með hurðinni og byssan stóð einhvern veginn á sér. Ég reif hana af honum og henti henni yfir afgreiðsluborðið.“ Shaw hrakti byssumanninn að því búnu á dyr.

Shaw hefur hlotið mikið lof fyrir hetjudáðina en lögregla sagði engan vafa leika á því að hann hafi bjargað lífi fjölmargra með skjótum viðbrögðum sínum. Hann sagði þó í viðtali við fjölmiðilinn Tennessean að honum liði ekki eins og hetju, hann hefði aðeins verið að reyna að halda lífi.

Hér að neðan má sjá myndband CNN-fréttastofunnar af blaðamannafundinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×