Skoðun

Söknuður

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Dag einn fór Logi litli með föður sínum á svokölluðu rúgbrauði út á Bíldudalsflugvöll að ná í flugmann sem þar var lentur. Þetta var hann Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson og þar sem einungis var pláss fyrir einn í farþegasætinu sat hann undir Loga á leiðinni heim. Árin þar á eftir hljómaði lagið Söknuður, og fleiri lög sem þetta nýja átrúnaðargoð litla drengsins söng, á heimili hans og þar sem ég var þar heimagangur er þetta lag samofið bernsku minni.

Á mínu heimili fékk ég Bítlana beint í æð. Úr herbergi föður míns hljómuðu lögin þeirra með þeim afleiðingum að það varð helsta skemmtan okkar vinanna að þenja badmintonspaða og berja kökuboxin hennar mömmu undir söng og leik fjórmenninganna frá Lifrarpolli. Þegar ég heyri þessi lög í dag finn ég að enn er ég þessi litli drengur sem ber kökuboxin hennar mömmu sinnar. Kveður svo rammt að þessu að meira að segja spegillinn nær ekki að rengja það.

Máttur tónlistarinnar er nefnilega svo magnaður að löngu liðin augnablik verða fersk í minni og sál. Þannig finn ég fyrir gömlu Puma-skónum á fótum mér sem bera mig á diskótek í Grunnskóla Bíldudals í hvert sinn sem ég heyri í dúettinum Wham. Ég verð meira að segja að hafa mig allan við svo að ég verði ekki skotinn í Önnu Maríu öðru sinni.

Ég sem á svona mikið undir tónlistinni stend auðvitað með Jóhanni í hans rimmu við risana sem tóku Söknuðinn ránshendi. Hann og aðrir sáðmenn söngvanna hafa nefnilega kallað fram hjá mér þennan angurværa en umfram allt fallega söknuð sem töfrar tónlistarinnar kveikja innra með mér.

Til allrar hamingju er ekkert stórfyrirtækjanna orðið það stöndugt að það geti haft þann söknuð af mér.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×