Erlent

Trump hótar Rússum með eldflaugum í Sýrlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump með John Bolton, nýjum þjóðaröryggisráðgjafa sínum. Þeir hafa ekki enn tilkynnt um viðbrögð Bandaríkjanna við árásinni í Douma umfram torrætt tíst forsetans í morgun.
Trump með John Bolton, nýjum þjóðaröryggisráðgjafa sínum. Þeir hafa ekki enn tilkynnt um viðbrögð Bandaríkjanna við árásinni í Douma umfram torrætt tíst forsetans í morgun. Vísir/AFP
Rússar ættu að búa sig undir eldflaugaskot í Sýrlandi vegna eiturvopnaárásar stjórnarhersins þar um helgina. Þessu tísti Donald Trump Bandaríkjaforseti nú í morgun. Rússar höfðu áður varað Bandaríkjastjórn við hernaðarafskiptum í Sýrlandi.

Trump hafði lofað meiriháttar ákvörðun um Sýrland á næstu 24-48 tímunum á mánudag. Það var vegna eiturvopnaárásar sem talið er að hafi verið framin í bænum Douma sem er á valdi uppreisnarmanna um helgina.

Enn hefur ekkert bólað á þeirri ákvörðun en Trump fór hins vegar mikinn á Twitter í morgun. Þar sagði hann að Rússar hefðu heitið því að skjóta niður öll flugskeyti sem yrði skotið að Sýrlandi.

„Gerðu þig tilbúið Rússland því þær eru á leiðinni, fínar og nýjar og „snjallar!“ [svo] Þið ættuð ekki að vera félagar Gasdrepandi skepnunnar sem drepur eigið fólk og nýtur þess!“ tísti Trump sem vísaði til Bahsars al-Assad Sýrlandsforseta sem skepnu.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að svo virðist sem að Trump hafi verið að vísa til orða sendiherra Rússa í Líbanon um að Rússar myndu skjóta niður eldflaugar og ráðast á skotpalla ef þeim yrði beint að sýrlenska stjórnarhernum.

Ekki er þó ljóst hversu mikil alvara liggur að baki hótun Trump. Aðeins hálftíma eftir tístið fylgdi annað þar sem forsetinn harmaði hversu slæm samskipti Bandaríkjanna og Rússland væru orðin. Þau væru orðin verri nú en í Kalda stríðinu og það að ástæðulausu.

„Rússland þarf hjálp okkar með efnahag sinn, eitthvað sem ætti að vera mjög auðvelt að gera og við þurfum á því að halda að allar þjóðir vinni saman. Stöðvum vopnakapphlaupið?“ tísti Trump og virtist þannig draga í land með fyrri rosta um eldflaugaárásir.

WHO krefst aðgangs að Douma

Bæði Sýrlandsstjórn og Rússar, sem veita henni hernaðaraðstoð, hafa neitað ábyrgð á árásinni og fullyrða jafnvel að engin eiturvopnaárás hafi yfir höfuð átt sér stað. Rússar beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til þess að fella ályktun um sjálfstæða rannsókn á árásinni í gær.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) krafðist í dag aðgangs að Douma til að starfsmenn hennar geti kannað hvort að fimm hundruð manns hafi orðið fyrir eitrun þar eins og samstarfsaðilar hennar segja. Tölur um mannfall eru nokkuð á reiki, á bilinu 40-70 eru sagðir hafa fallið í árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×