Innlent

Píratar kynntu framtíðarsýn sína

Oddvitar Pírata boðuðu til blaðamannafundar í gær.
Oddvitar Pírata boðuðu til blaðamannafundar í gær. Vísir/Sigtryggur
Píratar telja sig hafa náð að fylgja stefnumálum sínum frá því í síðustu kosningum með því að stofna rafræna þjónustumiðstöð í borginni, festa embætti umboðsmanns borgarbúa varanlega í sessi og endurskoða mannréttindastefnu borgarinnar.

Píratar kynntu í gær framtíðarsýn sína á sveitarstjórnarstigi með yfirferð yfir stefnumál sín í Reykjavík frá árinu 2014. Halldór Auðar Svansson, fulltrúi Pírata á sveitarstjórnarstigi, tók saman uppgjörsskýrslu fyrir síðasta kjörtímabil og kynnti í gær helstu niðurstöður skýrslunnar.

Píratar vildu að óháð stjórnsýsluúttekt yrði gerð á því hvort spilling væri til staðar innan embættismannakerfis Reykjavíkurborgar og vildu bregðast við ef svo reyndist vera. Innri endurskoðun borgarinnar vinnur nú að mati á misferlisáhættu innan borgarkerfisins.

Sérstök áhersla er lögð á að vakta áhættusvið í starfsemi og stjórnsýslu borgarinnar. Þá vildu Píratar efla fræðslu um þá valkosti sem bjóðast í hugbúnaðargeiranum, en ekki hefur verið unnið nægilega markvisst að því á kjörtímabilinu sem er að ljúka.

Píratar telja enn vera margt ógert í framkvæmd fjárhagsaðstoðar og annarrar þjónustu, en í skýrslunni segir að bæði starfsfólk Reykjavíkur og notendur kvarti undan of flóknu kerfi á innri vef borgarinnar. „Kallað er bæði eftir aukinni rafrænni þjónustu og góðum mannlegum samskiptum.“

Píratar vildu einnig efla embætti umboðsmanns borgarbúa og að hlutverk þess yrði útvíkkað þannig að borgarar geti leitað þangað með beiðnir um úrbætur í málum og málaflokkum. Í skýrslunni kemur fram að það hafi gengið eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×