Fótbolti

Buffon sér ekki eftir einu orði sem hann sagði um Michael Oliver

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon fagnar eftir sigur Juventus í ítölsku deildinni um helgina.
Gianluigi Buffon fagnar eftir sigur Juventus í ítölsku deildinni um helgina. Vísir/Getty
Gianluigi Buffon er ekki runnin reiðin. Hann er ennþá brjálaður út í enska dómarann Michael Oliver sem endaði Meistaradeildarferil ítalska markvarðarins í síðustu viku.

Oliver dæmdi víti á Juventus í uppbótartíma og við það sturlaðist Gianluigi Buffon. Michael Oliver lyfti þá rauða spjaldinu. Buffon kláraði því ekki síðasta leik sinn á ferlinum í Meistaradeildinni en var þess í stað sendur í sturtu.

Real Madrid skoraði úr vítinu og tryggði sér sæti í undanúrslitunum en Juve liðið hafði gert ótrúlega hluti með því að komast í 3-0 á útivelli og leikurinn var þarna á leiðinni í framlengingu.

Eftir leikinn hraunaði Buffon yfir Michael Oliver og talaði meðal annars um að enski dómarinn væri með ruslapoka í staðinn fyrir hjarta.

„Ég stend við öll orðin mín,“ sagði Gianluigi Buffon í sjónvarpsviðtali á Ítalíu.





„Ég myndi segja þau aftur en myndi kannski notað annað orðbragð. Þú reynir að finna leið til að koma orðunum frá þér og stundum eru þessi orð óhófleg. Þetta er bara ég, ég er Gigi Buffon,“ sagði Buffon.

„Ég er viss um að Oliver muni eiga flottan dómaraferil í fótboltanum en hann var bara of ungur til að dæma leik eins og þennan. Dómari með meiri reynslu hefði aldrei flautað í þessu tilfelli og ákveðið um leið að verða sjálfur örlagavaldur leiksins,“ sagði Buffon.

„Slíkur dómari hefði alltaf látið leikinn ganga og leyft liðunum að berjast um þetta í framlengingunni. Reyndur dómari hefði látið völlinn skera út um sigurvegara,“ sagði Buffon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×