Skoðun

Samstaða um netöryggi?

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Þrátt fyrir að Ísland státi af toppeinkunn frá Alþjóðafjarskiptasambandinu í upplýsingatækni og fjarskiptum er enn langt í land með að við náum sömu stöðu í netöryggismálum. Þessu þarf að kippa í liðinn sem fyrst.

Í skýrslu innanríkisráðherra frá 2015 eru nefnd fjögur meginmarkmið sem eiga að tryggja netöryggi: Meiri geta almennings, fyrirtækja og stjórnvalda til að verjast netógnum, aukið þol upplýsingakerfa til að bregðast við áföllum, löggjöf í samræmi við alþjóðlegar kröfur og skuldbindingar og hæfni lögreglu til að fást við glæpi tengda net- og upplýsingaöryggi.

Á fundi Norðurlandaráðs á Akureyri í síðustu viku samþykkti forsætisnefnd ráðsins að beina þeim tilmælum til norrænna stjórnvalda að auka samstarf landanna á sviði netvarna og þá einnig samstarf við Eystrasaltsríkin. Þau ríki, sér í lagi Eistland, hafa náð hvað lengst á sviði netöryggis, en öndvegissetur NATO um netvarnir er staðsett í Tallinn.

Þessi jákvæða tillaga var reyndar ekki samþykkt einróma því fulltrúar vinstriflokka í Norðurlandaráði, VG þar með talinn, studdu hana ekki. Vonandi hefur sú afstaða VG ekki áhrif á áherslur og áhuga ríkisstjórnar Íslands í þessum gríðarlega mikilvæga málaflokki. Það er þó ljóst að í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára er fátt bitastætt um netöryggi og þegar ég átti orðastað við Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra um málið á Alþingi í síðustu viku staðfesti hann að ekki væri tekið nægilega á netöryggismálum í fjármálaáætluninni. Til að gæta sannmælis er rétt að geta þess að samgönguráðherra sagði líka að það yrði að taka á málinu í næstu fjármálaáætlun.

Það er grundvallarkrafa að ríkisstjórn Íslands sé samstiga í að leita bestu hugsanlegu leiða til að tryggja netöryggi þjóðarinnar. Annars vegar með því samstarfi sem býðst við þjóðir sem fremst standa og hins vegar með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn í málaflokkinn. Misvísandi skilaboð og hik þegar kemur að því að taka af skarið er ekki í boði.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×