Fótbolti

Zidane útilokar ekki að taka við Juventus

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Zidane var léttur á blaðamannafundinum í gær.
Zidane var léttur á blaðamannafundinum í gær. vísir/getty
Átta liða úrslitin í Meistaradeild Evrópu hefjast í kvöld en stórleikur kvöldsins er viðureign stórveldanna Real Madrid og Juventus.

Þjálfari Real, Zinedine Zidane, var leikmaður Juve frá 1996 til 2001 og vann ítölsku deildina tvisvar með félaginu. Hann tengist því sterkum böndum.

„Verð ég þjálfari Juventus einn daginn? Aldrei að segja aldrei en ég er hamingjusamur þar sem ég er í dag,“ sagði Zidane við ítalska fjölmiðla daginn fyrir leik.

Þessi félög mættust í úrslitum keppninnar á síðustu leiktíð en þá vann Real Madrid 4-1 í Cardiff. Real er að reyna að vinna keppnina þriðja árið í röð.

Spænska deildin er úr myndinni hjá Real sem og spænski bikarinn. Allur kraftur hjá Real fer því í Meistaradeildina.

Þetta er fyrri leikur liðanna og hann fer fram í Tórínó. Þar hefur Juventus ekki tapað fyrir Real síðan 1962. Juventus var líka síðasta liðið til að skella Real í Meistaradeildinni en það var árið 2015.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×