Skoðun

Á hálum ís

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Nýlegar fregnir af því að hvernig ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica nýtti sér persónuupplýsingar milljóna Facebook-notenda til þess að „planta falsfréttum“ – líkt og fyrrum starfsmaður fyrirtækisins orðaði það – hafa enn á ný beint athygli stjórnmálamanna að þeirri ógn sem lýðræðissamfélögum getur stafað af vaxandi dreifingu slíkra „frétta“.

Þannig skar öryggismálastjóri Evrópusambandsins upp herör gegn falsfréttum fyrr í vikunni og hótaði forsvarsmönnum samfélagsmiðla að gripið yrði til aðgerða ef þeir brygðust ekki þegar í stað við vandanum. Stjórnvöld í nokkrum ríkjum, svo sem Þýskalandi, hafa þegar sett lög sem heimila þeim að sekta samfélagsmiðla sem hemja ekki fréttir sem álitnar eru falskar.

Engin ástæða er til þess að gera lítið úr þeirri plágu sem fréttafalsanir eru. Hins vegar er rík ástæða til þess að spyrja hvaða afleiðingar það geti haft ef embættismönnum er fengið það vald að ákveða hvað sé fals og hvað ekki. Vafalaust býr góður hugur að baki hótunum stjórnmálamanna. Hver vill ekki útrýma falsfréttum? En í lýðræðissamfélögum, þar sem tjáningarfrelsi borgaranna er í heiðri haft, getur lausnin ekki falist í því að embættismenn ákveði hvað sé satt og banni það sem þeir telja að sé ósatt. „Falsfréttir eru slæmar en sannleiksráðuneyti er enn verra,“ sagði Andrus Ansip, fyrrverandi forsætisráðherra Eistlands.

Heillavænlegri lausn fælist í því að almenningur sýndi sjálfur meiri ábyrgð, gætti sín á furðufréttum og legði sig þess í stað eftir vönduðum fréttum sem skipta raunverulega máli. Um leið krefst það þess að heiðvirðir fréttamiðlar standi sína plikt betur. Í stað þess að koma á fót sannleiksráðuneyti ætti það fremur að vera kappsmál stjórnmálamanna að efla slíka miðla.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×