Sport

Krabbameinsaðgerð í janúar en gull á ÓL í mars

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mentel-Spee, til vinstri, fagnar hér gullinu sínu í Suður-Kóreu.
Mentel-Spee, til vinstri, fagnar hér gullinu sínu í Suður-Kóreu. vísir/getty
Hin hollenska Bibian Mentel-Spee var greind með krabbamein í júlí, fór í aðgerð í janúar en var að vinna gull á Vetrarólympíuleikum fatlaðra í gær. Ótrúleg saga.

Þessi 45 ára gamla kona fékk nefnilega gull í snjóbrettakeppni í PyeongChang í gær aðeins 10 vikum eftir krabbameinsaðgerð. Hún var greind með krabbamein í níunda sinn um ævina síðasta sumar og staðan var ekki góð í kringum áramótin.

„Þá var sagt við mig að ég þyrfti að fara strax í aðgerð annars ætti ég á hættu að hálsbrotna og lamast. Þá gat ég heldur ekki verið á brettinu því lítið fall hefði getað lamað mig,“ sagði Mentel-Spee.

„Ég fór því í tvær aðgerðir í kringum áramótin og læknirinn sagði við mig eftir þær að hálsinn væri í lagi og ég gæti farið á leikana.“

Hún náði aðeins að undirbúa sig í þrjár vikur fyrir leikana í PyeongChang en það var miklu meira en nóg fyrir þessa mögnuðu íþróttakonu.

Mentel-Spee var að undirbúa sig fyrir Vetrarólympíuleika ófatlaðra árið 2002 er æxli fannst í ökkla hennar. Það endaði með því að fóturinn var tekinn af en hún var samt mætt á snjóbretti fjórum mánuðum síðar.

Hún vann svo til gullverðlauna á ÓL í Sotsjí árið 2014 og endurtók svo leikinn nú í Suður-Kóreu. Mentel-Spee hefur verið með yfirburði í íþróttinni og hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×