Skoðun

Áfangasigur

Ellert B. Schram skrifar
Núna, um daginn, samþykkti ríkisstjórnin að skipa vinnuhóp, með fulltrúum aldraðra, sem skoða skal stöðu þeirra eldri borgara sem minnstu tekjur hafa og búa við fátækt. Reyndar hefur vinnuhópurinn, í framhaldinu, það hlutverk að rýna þau mál sem varða mörg önnur „klögumál“ af hálfu ellilífeyrisþega, svo sem húsnæði, þjónustu, hjúkrun, frítekjumörk o.s.frv. En sem sagt, hagur eldri borgara verður skoðaður og ræddur, með það fyrir augum, að gera betur í öldrunarmálum. Ég tek hatt minn ofan fyrir Katrínu forsætisráðherra og Ásmundi velferðarráðherra, sem bæði tóku tillögum um endurskoðun á kjörum aldraðra skjótt og vel. Ég segi heyr, um þau bæði tvö, og ríkisstjórnina, sem hefur fallist á þessi vinnubrögð.

Í gamla daga, í fótboltanum, var fagnað þegar sigur vannst í einum leik. Það var áfangi hverju sinni, sem færði þig nánar að meistaratigninni. Sama má segja um það samkomulag sem nú hefur tekist varðandi málefni eldri borgara. Meistaramarkið hefur ekki verið skorað en skrefið er í rétta átt, upphlaup sem getur endað með sigurmarki. Þannig líður mér þessa dagana. Við erum að nálgast áfangann og úrslitin. Og kannski skulum við ekki tala um sigur, heldur samkennd og mannúð og réttlæti.

Við erum auðvitað ekki í kappleik, þegar um er að ræða hag og stöðu samborgara okkar og þegar ævikvöld þeirra er á dagskrá. Við erum ekki að rífast, ekki að humma ábyrgðina fram af okkur, né heldur hundsa samborgara okkar, sem þurfa á hjálp að halda. Við erum og verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að sumir á meðal okkar, hafa misst af lestinni. Hafa orðið útundan. Það er okkar hinna, þeirra sem yngri eru, þeirra sem betur búa, þeirra sem ráða, að rétta höndina og hjálpina til þeirra sem búa við fátækt, veikindi og einangrun.

Það er margt sem laga þarf en byrjum á þessu. Tökum fyrsta skrefið. Íslendingar er sagðir vera með ríkustu þjóðum heims. Já, það er fínt, en það er alveg sama hvort við erum rík eða ekki rík. Látum ekki um okkur spyrjast að við gleymum þeim sem verða útundan, sem ekki eiga í sig og á, þeim sem eru komnir á aldur og hafa hvorki þrek né tíma til að rétta úr kútnum. Hjálpum þeim. Tryggjum þeim áhyggjulaus ævikvöld. Nú skulum við bretta upp ermarnar.

Höfundur er formaður FEB




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×