Glamour

Björk heldur tónleika í Háskólabíó

Ritstjórn skrifar
Glamour/Getty
Björk Guðmundsdóttir ætlar að halda tónleika í Háskólabíó þann 12.apríl næstkomandi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Tónleikarnir eru einskonar generalprufa fyrir Utópíutúrinn hennar í sumar og miðasala hefst á Tix.is á morgun klukkan 12. 

Með henni á tónleikunum verða sjö íslenskir flautuleikarar, þær Steinunn Vala Pálsdóttir Áshildur Haraldsdóttir, Emilía Rós Sigfúsdóttir,Berglind María Tómasdóttir, Björg Brjánsdóttir,  Melkorka Ólafsdóttir og Þuríður Jónsdóttir. Bergur Þórisson leikur á básúnu og sér um rafhljóð sem og að ásláttarmeistarinn Manu Delago kemur fram. Margrét Bjarnadóttir sér um kóreógrafíu og Heimir Sverrisson um leikmynd. 

Björk talar um túrinn í forsíðuviðtali við nýjasta tölublað Glamour þar sem hún prýðir forsíðuna á myndum eftir Silju Magg. 

„Ég er að reyna að gera aldrei tvo hluti eins. Ég gerði það í 10 ár, að fara á túr með plötuna og það var ógeðslega gaman. Tvennt ólíkt, að semja plötu og svo fara á túr með hana. Tveir ólíkir karakterar. En eftir að geisladiskasala minnkaði og allt er að breytast vildi ég nota það mér í hag og vera bara sveigjanleg. Gallinn við þetta gamla kerfi var að maður vissi alltaf hvað maður var að gera langt fram í tímann. En internetið er mjög spontant og það þýðir ekkert að ákveða hvað maður ætli að gera eftir eitt og hálft ár. Þannig að ég er að verða meira og meira spontant. Ég er til dæmis bara núna að plana þennan túr, með nokkurra mánaða fyrirvara,“ sagði Björk við Glamour.



Hægt er að lesa allt viðtalið í nýjasta tölublaði Glamour og tryggja sé áskrift hér. 

 

 

Myndir Silja Magg





×