Fótbolti

Liverpool og Man. City í pottinum þegar dregið verður í Meistaradeildinni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Liverpool og Manchester City á dögunum.
Frá leik Liverpool og Manchester City á dögunum. Vísir/Getty
Sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar kláruðist í fyrrakvöld og í hádeginu verður dregið í átta liða úrslitin. Tvö ensk félög verða í pottinum með stórliðum Evrópu.

Liverpool og Manchester City voru einu ensku liðin sem komust í gegnum sextán liða úrslitin en Manchester United, Chelsea og Tottenahm eru hinsvegar öll úr leik.

Liverpool og Man. City gætu lent á móti hvoru öðru en þau gætu líka lent á móti liðum eins og Real Madrid, Barcelona, Roma, Sevilla, Bayern München eða Juventus.

Það má búast við nokkrum stórleikjum eftir drátt dagsins en leikirnir í átta liða úrslitunum fara fram 3. og 4 apríl annarsvegar og 10. og 11. apríl hinsvegar.

Liverpool sló Porto auðveldlega út í sextán liða úrslitunum en Manchester City vann Basel 5-2 samanlagt. Það er hætt við því að næstu andstæðingar liðanna verði mun erfiðari viðureignar.

Liverpool hefur ekki verið í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í níu ár en síðast mætti liðið þar Chelsea og tapaði 7-5 samanlagt. Manchester City var síðast í átta liða úrslitum keppninnar fyrir tveimur árum og hafði þá betur á móti Paris Saint-Germain.





Það verður einnig dregið í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar en þar er Arsenal í pottinum og getur lent á móti liðum eins og Atletico Madrid, CSKA Moscow, Lazio, Marseille, RB Leipzig, RB Salzburg, Sporting Lissabon eða Viktoria Plzen.

Drátturinn í Meistaradeildina hefst klukkan 12.00 að staðartíma í Nyon í Sviss eða klukkan 11.00 að íslenskum tíma. Það verður síðan dregið í Evrópudeildina klukkutíma síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×