Erlent

Fegurðarsamkeppni gegn fordómum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sithembiso Mutukura bar sigur úr býtum og fyrir aftan hana standa Makaita Ngwenya og Monalisa Manyati sem voru í öðru og þriðja sæti.
Sithembiso Mutukura bar sigur úr býtum og fyrir aftan hana standa Makaita Ngwenya og Monalisa Manyati sem voru í öðru og þriðja sæti. Vísir/AFP
Fyrsta fegurðarsamkeppni albínóa í Simbabve var haldin í höfuðborginni Harare í kvöld þar sem hin 22 ára gamla Sithembiso Mutukura bar sigur úr býtum. Keppninni er ætlað að draga úr fordómum og auka meðvitund um albínisma. Albínóar mæta gífurlegum fordómum og ofbeldi víða um Afríku.

Sums staðar eru þeir eltir uppi og drepnir þar sem „særingjalæknar“ segja líkamshluta albínóa færa fólki lukku og þeir búi yfir lækningamætti. Til eru dæmi um að albínóar séu seldir af ættingjum sínum.

Hagsmunasamtök segja að um 90 prósent manna með albínisma deyi fyrir 40 ára aldur.

Talið er að um 39 þúsund albínóar búi í Simbabve en genagallinn er algengari í Afríku en í öðrum heimshlutum. Áður hafði keppni sem þessi eingöngu verið haldin í Kenía.

Mutukura sagði blaðamanni AFP fréttaveitunnar að hún hefði tekið þátt í keppninni til að auka meðvitund. Hún sagði alla líta niður á albínóa.



„Ég hef gengið í gegnum margt en vil að fólk sem býr við albínisma sé hugrakt og njóti lífsins,“ sagði hún. „Við verðum að berjast fyrir réttindum okkar og ég vona að sigur minn muni styrkja ungar stúlkur.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×