Körfubolti

Hrafn: Bið Borche afsökunar

Böðvar Sigurbjörnsson skrifar
Hrafn á hliðarlínunni fyrr í vetur.
Hrafn á hliðarlínunni fyrr í vetur. vísir/anton
Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar var að vonum ánægður með sína menn eftir góðan sigur gegn ÍR í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildarinnar.

„Ég er bara ótrúlega ánægður með liðið mitt, það var rosalega mikilvægt að taka þennan leik. Ég ætla að nota tækifærið opinberlega og biðja Borche afsökunar (innsk. blm. þjálfari ÍR) á að hafa hlaupið upp í stúku þegar flautað var til leiksloka í stað þess að fara og taka í höndina á honum. Það var þjálfari sem var að finna fyrir pressunni og missti stjórn á gleðinni.“

Hrafn var ánægður með varnarleik liðsins í kvöld.

„Þeir skora 29 stig í öðrum leikhluta og 28 stig samanlagt í hinum þremur. Mér finnst varnaleikur fallegur þannig að því leiti var þetta fallegur leikur. Við erum komnir í 1-1 á móti annars sætis liðinu í deildinni án þess að vera byrjaðir að hitta úr körfuboltaskotum og það gefur okkur ákveðið fyrirheit.“

Hrafn sagði það ekki hafa verið góða tilhugsun að fara 2-0 undir á heimavöll ÍR.

„Það hefði verið hræðilegt að fara 2-0 undir í Seljaskóla sérstaklega þar sem það var ekki margt sem sérstaklega hefði þurft að bæta í leik liðsins.“

Hrafn sagði sína menn vera nokkuð bratta á framhaldið.

„Við erum bara brattir og höfum alltaf verið það. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta er lið sem var alveg við það að ná í deildarmeistaratitilinn og eru með einn sterkasta heimavöllinn í deildinni."

„Það væri í raun ótrúlegt ef þeir myndu tapa þessu einvígi á móti sjöunda sætis liðinu en við höfum þá trú á okkur að við getum strítt þeim meira en þetta og okkur finnst við vera að gera réttu hlutina, sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×